Lögrétta 28. nóvember 2007
Fundur settur kl. 17:45.
1. Laun allsherjargoða
Fyrir liggur stjórnarfundarsamþykkt frá 14.11.2007 um sama efni. Sú samþykkt samhljóða, svo og 200.000 kr. eingreiðsla til allherjargoða vegna kostnaðar undanfarinna ára.
2. Fyrirkomulag greiðslu fyrir athafnir
Vísað til goðafundar.
3. Fjölmenningarlegt dagatal
Gegnum Samráðsvettvang trúarbragða hefur borizt erindi vegna fjölmenningarlegs dagatals á vegum Félagsmálaráðuneytisins og Evrópuárs jafnra tækifæra. Við þurfum að skilgreina alla hátíðisdaga okkar, en stendur til boða að 4 þeirra verði gerð sérstök skil með 50 orða útskýringu. Hátíðisdagarnir eru sumar- og vetrarsólstöður, jafndægur á vori og hausti, sumardagurinn fyrsti, fyrsti vetrardagur og þórsdagur í 10. viku sumars. Ákveðið, að sólardögunum fjórum verði gerð sérstök skil.
4. Störf vegna jólablóts
Rún og Óttar verða í prófum fram að blóti, en Egill verður erlendis. Alda Vala og Ólafur sjá til þess, að þetta gangi, en Rún verður þeim innan handar vegna innborgana. Blótnefndin, með Árna innanborðs, leggur sitt að mörkum. Hundur í óskilum mun hafa lækkað launakröfu sína allnokkuð. Jóhanna kannar þetta nánar. Goðarnir annast helgistund í Öskjuhlíð, en þurfa aðstoð við aðföng. Hafa þarf samband við Slökkviliðið. Sólstöðublótið og jólablótveizlan verða samdægurs, 22.12.
5. Önnur mál
Niðurstöður nýlegs goðafundar eru komnar á netið. Byggingarlóð fyrir hof er talin endanlega ákveðin. Brýnt þykir að hlaða þar hörg hið fyrsta, en óttast er um skemmdarverk. Eldstæðið hafi forgang, en dómhringur má bíða um sinn. Stjórnin kanni eignarrétt okkar á lóð í Öskjuhlíð og byggingarrétt þar.
Dragháls: Egill og Jónína hafa hitt landeiganda. Jóhanna telur jafnvel möguleika á fjárframlagi frá menningarnefnd Hvalfjarðarsveitar vegna fyrirhugaðra framkvæmda okkar við Dragháls. Arkitekt þarf til skipulagsvinnu. Samþykkt að leita til slíks.
Valur Gunnarsson hefur gefið út bókina Konungur norðursins. Valur býður okkur upplestur og umræður um efni bókarinnar. Hugsanlega 15.12. í framhaldi af opnu húsi. Félagið býður þá upp á bjór og piparkökur.
Fundi slitið kl. 19:10. Fundarritari: Óttar Ottósson.