Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Nafngjöf

Athöfn þessi er hugsuð barninu til heilla og verndar. Goðinn kveður eða les erindi úr Völuspá sem greina frá að hvert nýfætt barn er fyrirheit um framhald hinnar eilífu hringrásar lífsins. Sem andlegt veganesti útí lífið lesa eða kveða foreldrar, aðstandendur eða goði erindi úr Hávamálum.

Á táknrænan hátt er barninu gefin næring sem veraldlegt veganesti, þannig taka foreldrar eða aðrir virkan þátt í nafngjöfinni. Við nafngjöf er eftirfarandi ljóð sem Sveinbjörn Beinteinsson fyrrum allsherjargoði orti fyrir slík tilefni gjarnan lesið:

Megi mannheill
nafni fylgja
styrki þig guðir
og góðar vættir
álfar og dísir
og allt sem lifir.
gróður jarðar
og geisli sólar.

 

Móðir segir frá nafngjöf

Eftirfarandi pistill birtist upphaflega í Vorum sið, 2.tbl. 2011.
Við eina af þremur rótum Asks Yggdrasils stendur Urðarbrunnur en þar búa skapanornirnar þrjár. Þær Urður, Verðandi og Skuld spinna vef fyrir hverja manneskju og ákvarða þannig ævi hennar.

Ævi manneskjunnar hefst með fæðingu og þaðan fetar hún lífsins veg. Fljótlega fær hún nafn sem hún má sátt við una enda fylgir það henni alla ævi. Það er merkilegt verkefni að velja nafn á aðra manneskju, ekkert vafamál fyrir suma en aðrir þurfa mikla umhugsun.

Þann 16. apríl 2011 var ég stödd í afar björtum og fallegum sal í Hvassaleiti. Tilefnið var nafngjöf dóttur minnar. Það var kalt í veðri svo við ákváðum að hafa athöfnina innandyra. Þarna stóðum við í miðju salarins, umkringd ættingjum
og vinum.

Það logaði á níu kertum í hring og til staðar var vatn og mold. Jóhanna Harðardóttir, með Hauk  Bragason sér við hlið, byrjaði á því að helga staðinn. Vert er að taka fram að forvitni og eftirvænting lá í loftinu, ekki eingöngu hvað nafnið varðaði, því flestir viðstaddra höfðu aldrei upplifað nafngift að heiðnum sið fyrr.

Jóhanna fjallaði um skapanornirnar og vefina sem hver og ein spinnur. Orð hennar voru góð áminning um að við erum hluti af vefjum hvers annars og þar með voru allir viðstaddir hluti af vef dóttur minnar. Sú litla fékk nafnið Sigríður Lóa í höfuðið á ömmum sínum og í nafngjöf fékk hún hálsmen með rúnatákni. 

Systur hennar tvær, Rannveig Ósk og Sólbjört María, komu svo inn í hringinn og lásu eftirfarandi heilræði úr Hávamálum:
44.
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
68.
Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn,
heilyndi sitt,
ef maður hafa náir,
án við löst að lifa

Að lokum lyfti Haukur horninu góða og við drukkum úr því til heilla Sigríði Lóu. Hornið var látið ganga á milli gesta sem ýmist drukku úr því eða lyftu því upp og þannig tóku allir þátt í athöfninni.

Hvort sem við erum foreldrar, vinir eða ættingjar þá tökum við þátt í að ákvarða ævi fólksins í kringum okkur og fléttumst inn í vefi skapanornanna þriggja. Það er þess virði fyrir okkur öll að ígrunda hvernig við höfum áhrif á hvert annað.

Ég get ekki annað en mælt með þessum möguleika í nafngjöf barna. Athöfnin skildi eftir bæði ljúfar og góðar minningar og það voru allir á eittsammála umað hún hefði verið afar falleg og mjög hátíðleg. 
Elín Sigríður Sævarsdóttir