Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Lögrétta og önnur embætti

Lögrétta

Lögrétta er æðsta ráð og jafnframt framkvæmdastjórn Ásatrúarfélagsins. Lögsögumaður er formaður hennar og framkvæmdastjóri félagsins. Í henni sitja fimm almennir félagsmenn, kjörnir af allsherjarþingi, auk tveggja varamanna. Þá eiga sæti í lögréttu allsherjargoði og einn fulltrúi sem goðar tilnefna úr sínum röðum. Allir goðar hafa rétt til setu á fundum lögréttu með málfrelsi og tillögurétti. Hver lögréttumaður fer með eitt atkvæði. Lögréttumenn kjósa úr sínum röðum lögsögumann og staðgengil hans, ritara og gjaldkera.

Allsherjarþing fer með æðsta vald í félaginu. Skal það sett á Þingvöllum á þórsdag í tíundu viku sumars ár hvert, en lögréttu er heimilt að fresta þingstörfum til síðasta laugardags í októbermánuði. Allir félagar Ásatrúarfélagsins eiga rétt til setu á allsherjarþingi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Atkvæðisréttur og kjörgengi miðast við 18 ára aldur.

Lögrétta kemur saman minnst þrisvar sinnum á ári; fyrsta sunnudag eftir allsherjarþing, fyrsta laugardag í mars og fyrsta laugardag í september. Almennum félagsmönnum er heimilt að sitja fasta lögréttufundi. Ekki þarf að auglýsa lögréttufundi.

Lögsögumaður gegnir hlutverki framkvæmdarstjóra félagsins. Hann varðveitir skjöl og lagatexta. Hann kallar saman fundi, stýrir þeim eða skipar fundarstjóra. Lögsögumaður getur í umboði lögréttu kallað menn til verka í þágu félagsins. Honum er skylt að boða til fundar óski að minnsta kosti tveir lögréttumenn þess.

Kosin var ný lögrétta 02. nóv 2019, sem skiptir með sér verkum og er þannig skipuð:

Óttar Ottosson, lögsögumaður (kosinn 2018 til tveggja ára).
Silke Schurack, staðgengill lögsögumanns (kosinn 2019 til tveggja ára)
Martin Wuum, gjaldkeri (kosinn 2018 til tveggja ára)
Theresa Dröfn Njarðvík, ritari (kosin 2018 til tveggja ára)
Ásdís Elvarsdóttir, meðstjórnandi (kosin 2019 til tveggja ára)
- - -
Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði (á fast sæti sem allsherjargoði)
Jóhanna Harðardóttir, staðgengill allsherjargoða (tilnefnd af goðahópi)
- - -
Jóhannes Levy, varamaður (kosinn 2019 til eins árs)
Þorbjörg Elfa hauksdóttir, varamaður (kosin 2019 til eins árs)
 

Nefndir og störf á vegum lögréttu

Lögrétta skipar í nefndir og hefur umsjón með starfi þeirra. Nefndir geta leitað álits lögréttu, goða eða félagsmanna um mál sem þær hafa til meðferðar. Nefndir skila niðurstöðum sínum til lögréttu sem leggur þær fyrir allsherjarþing.

Ritstjóri Vors siðar:
Gréta Hauksdóttir

 

Starfsmaður Ásatrúarfélagsins

Ásatrúarfélagið hefur starfsmann í hlutastarfi sem sér um daglegan rekstur félagsins og þjónustu við félaga. Ólöf Bjarnadóttir sinnir starfinu um þessar mundir og svarar erindum í síma 5618633 og á asatru@asatru.is.