Leit á asatru.is:

Athafnir
Félagsstarf
Ásatrú
Kvæði og fræði
Myndir
Horfa/hlusta

Útför

 

Askur Yggdrasils hið sígræna helga tré Ásatrúarinnar birtir okkur hringrás lífsins og sýnir hina stöðugu umbreytingu sköpunar og eyðingar sem jafnframt viðheldur tilverunni. Á mannsæfinnni, sé litið á hana sem hringrás, er dauðinn visst skref, endir eins er upphaf annars.

Samkvæmt lögum um trúfélög og lögum og reglum Ásatrúarfélagsins er útför mótuð og framkvæmd af allsherjargoða eða goða með vígsluréttindi, í samráði við aðstandendur. Gjarnan taka fleiri goðar þátt í athöfninni. Staðsetning athafnar er að vali aðstandenda hvar á landinu sem vera skal í samráði við goðann og útfararþjónustuna. Hafa heiðnar útfarir verið nokkuð mismunandi og mótast af persónunni sem verið er að kveðja hvert sinn. Ávalt er kveðið úr Eddukvæðum auk annars rímnakveðskapar, hljómlistar og ljóðalesturs. Einnig er eldur alltaf til staðar og sígrænar jurtir. Á kistuna eru lagðir munir sem hinum látna voru kærir, honum óskað fararheilla til þeirra heima er við á og að goð og gyðjur og góðar vættir styrki þá sem eftir standa. Viðstaddir ganga sólarsinnis kringum kistuna og kveðja hinn látna hver á sinn hátt.

Síðan 1999 hefur Ásatrúarfélagið átt sinn eigin grafreit í Gufuneskirkjugarði en þar eru nokkrir heiðnir menn jarðsettir.

Í náinni framtíð verður góð aðstaða fyrir útfararathafnir í hofi vors siðar.

 
Deyr fé
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.

Deyr fé
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama
eg veit einn
að aldrei deyr,
dómur um dauðan hvern.


Úr Hávamálum.