Skip to main content

Léttum áhyggjum af ættingjum og tryggjum að farið sé að vilja okkar

Eftir apríl 8, 2013desember 17th, 2021Fréttir

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði

Margir heiðnir menn mega ekki til þess hugsa að útför þeirra fari fram í kirkju eða sé framkvæmd af presti. Þrátt fyrir þetta hafa fjölmörg dæmi sannað að ættingjar látinna heiðingja hafa látið alla umsjá útfarar þeirra í hendur kirkjunni.

Í nánast öllum tilvikum hafa goðum Ásatrúarfélagsins verið kunnugar óskir hins látna um að athöfnin færi fram að heiðnum sið en ættingjarnir annað hvort ekki vitað af því eða ákveðið þegar á hólminn er komið að hafa „hefðbundna“ útför þvert á vilja hins látna.

Ég vil ekki áfellast viðkomandi einstaklinga, þeir standa frammi fyrir erfiðri ákvörðun þegar lítill tími er til umhugsunar og ímyndaður eða raunverulegur þrýstingur á viðkomandi að „gera rétt“. Meðan engin staðfesting á óskum hins látna er til staðar er framkvæmdin alfarið í höndum eftirlifanda sem velur eflaust það sem hann telur best og stundum eftir harða baráttu við sjálfa sig og jafnvel aðra.

Það er heldur ekki auðvelt að vera ættingi í þessari stöðu og standa frammi fyrir hefðum samfélagsins. Það myndi létta ættingjum mikið að hafa í höndum undirritað plagg þar sem skýrt kemur fram hverjar óskirnar voru og geta fengið aðstoð við að uppfylla þær.

Nú hefur slíkt plagg litið dagsins ljós; svokölluð Lífslokaskrá sem einfalt er að útfylla, en þar koma fram óskir um hvernig eigi að bregðast við þegar sá sem hana undirritar yfirgefur Miðgarð. Sigurður Helgi Guðjónsson, lögmaður, var mér innan handar við að fullgera plaggið á lögformlegan hátt . Lífslokaskráin er nú í uppsetningu Grétu Hauksdóttur og verður tilbúin mjög fljótlega.

Sá sem undirritar skrána getur látið votta að hann vilji hafa heiðna athöfn við lífslok og hægt er að taka fram hvar athöfnin skuli fara fram, hvort hún verði í kyrrþey og hvernig eigi að haga ýmsu varðandi hana.

Skráin verður auglýst á vefsíðunni og Facebook-síðunni um leið og hún er tilbúin. Kíkið endilega, fyllið út og bendið öllum á hana. Það er of seint að gera eitthvað í málinu þegar prestur er búinn að krossa yfir okkur.

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði