
Fimmtudaginn 10. maí verður Landhelgisgæslunni afhentur þyrlusjóður sem stofnaður var í tilefni 40 ára afmælis Ásatrúarfélagsins.
Landhelgisgæslan hefur með eftirliti, leit og björgun stuðlað að öryggi sjófarenda og annarra landsmanna og verndað auðlindir þjóðarinnar við erfiðar aðstæður. Fyrir það nýtur Landhelgisgæslan virðingar og trausts allrar þjóðarinnar, segir í tilkynningu frá Ásatrúarfélaginu.
Fyrsta skip Gæslunnar var gufuskipið Óðinn sem kom til landsins árið 1926 og frá þeim tíma hafa skip og flugvélar hennar borið nafn norrænna goða og gyðja.
Í tilefni 40 ára afmælis síns fannst Ásatrúarfélaginu því við hæfi að leggja 1000 krónur frá hverjum félagsmanni í þyrlusjóð sem afhentur verður Landhelgisgæslunni til eignar án afskipta félagsins. Í framtíðinni er sjóðnum ætlað að vera vettvangur allra landsmanna til að efla öryggi lands og þjóðar. Gæslan setur reglur hans, en verndari sjóðsins verður Öldungaráðið, sem er félag starfsmanna LHG sem hættir eru störfum.
Afhending sjóðsins fer fram um borð í varðskipinu Þór kl. 14:30, en skipið verður þá komið til hafnar í Reykjavík eftir langa fjarveru.