
Bækur Ólafs Briem, Heiðinn siður á Íslandi og Norræn goðafræði, verða senn fáanlegar án endurgjalds á Rafbókavefnum. Þetta eru gleðifréttir fyrir okkur heiðingja og aðra áhugamenn um heiðinn sið.
Maðurinn á bak við Rafbókavefinn er Óli Gneisti Sóleyjarson. Hann hefur gengist fyrir því að gefa út margvísleg ritverk, innlend sem erlend, sem rafbækur og dreifa þeim án endurgjalds. Má þar m.a. nefna Íslendingasögur og önnur íslensk fornrit sem seljendur voru farnir að innheimta fullt verð fyrir í rafbókaverslunum sínum þó að tilkosnaður við útgáfuna væri nærri því enginn.
Höfundarréttur fellur niður þegar sjötíu ár eru liðin frá andláti höfundar þannig að ljóst er að biðin getur verið löng eftir því að margar ágætustu ritsmíðar 20. aldar verði almenningseign. Til að auka úrval frírra bóka hefur Óli Gneisti leitað eftir heimild rétthafa til þess að gefa út bækur sem eru enn varðar höfundarrétti.
Hann hefur nú fengið leyfi fyrir bókum Ólafs Briem en það er dætur Jóhanns Briem, listmálara, bróður Ólafs, þær Katrín, Ólöf og Brynhildur sem veita leyfi fyrir verkinu.

Þó að efni bókanna sé tengt þá eru þær um margt ólíkar. Sú fyrrnefnda er fræðilegri í umfjöllun sinni en sú síðarnefnda er inngangsrit sem hefur verið mikið notað í kennslu í framhaldsskólum landsins frá því hún kom fyrst út árið 1940 (síðasta útgáfa var 1990). Þær hafa ekki verið endurútgefnar frá því að Ólafur lést og því má búast við að margir hlakki til að komast í þær.
Óli Gneisti óskar eftir aðstoð þeirra sem vilja leggja verkefninu lið og bendir áhugasömum um að skrá sig á prófarkalestursvef Rafbókavefsins.
Sömuleiðis skorar hann á þá sem eiga réttinn að bókum, hvort heldur er sínum eigin eða ættingja sinna, og vilja koma þeim í frjálsa dreifingu, til að hafa samband.