Skip to main content

Fyrirlestur á opnu húsi laugardaginn 10. janúar.

Eftir janúar 8, 2026Fréttir

Á opnu húsi laugardaginn 10. janúar mun Dr. Haukur Þorgeirsson flytja erindið Varnarbarátta heiðninnar. Húsið opnar kl. 14 og hefst erindið um 14:30.

Hvernig getur manneskja öðlast þekkingu á guðunum? Heimspekingar fornaldar í Grikklandi og Rómaveldi leituðust við að rannsaka hið guðlega en iðulega voru svör þeirra ekki nema í lauslegum tengslum við trúariðkun alþýðunnar. Þegar kristin trú kom fram á sjónarsviðið sem skæður áskorandi og keppinautur heiðninnar snerust heimspekingar til varnar. Það gerðu þeir bæði með því að gagnrýna kristnar hugmyndir og einnig með því að leitast við að bæta heiðna heimspeki og lífsskoðun á ýmsa vegu. Þótt kristnin yrði á endanum sigursæl bar starf heiðnu heimspekinganna ýmsan athyglisverðan ávöxt.

Á Íslandi 13. aldar var einnig háð eins konar heimspekileg barátta fyrir hönd heiðninnar en þá til að skrásetja og varðveita þekkingu á norrænni trú. Í formála eða prologus Snorra-Eddu má segja að norræn trú sé sett fram í eins jákvæðu ljósi og mögulegt var innan hinnar kristnu heimsmyndar. Þær guðfræðihugmyndir sem þar birtast er athyglisvert að bera saman við þær heimspekilegu hugmyndir sem heiðnir og kristnir heimspekingar fyrri alda höfðu sett fram.

 

Allir velkomnir!