Á nýafstöðnu þingblóti voru tveir goðar vígðir til embættis. Fjölgaði goðum Ásatrúarfélagsins þar með formlega úr sjö í níu – og þykir það aldeilis viðeigandi tala!
Andrea Ævarsdóttir, sem starfað hefur með félaginu af miklum krafti svo árum skiptir, tekur sér goðatitilinn Fljótamannagoði og Ragnar Elías Ólafsson, sem rifið hefur upp félagsstarfið á Akureyri ásamt góðum hópi fólks, tekur sér goðatitilinn Þveræingagoði. Voru þau bæði tilnefnd af Allsherjargoða og lögréttu, samþykkt af seinasta Allsherjarþingi og sóru þau eiðstafi sína á þingblóti félagsins á Þingvöllum þann 21. júní síðastliðinn. Megi gæfa fylgja þeim í starfi!