Skip to main content

Í aðdraganda Allsherjarþings

Eftir september 20, 2025Fréttir

Vegna komandi Allsherjarþings 1. nóvember næstkomandi, þá er hér minnt á að samkvæmt 38. grein starfsreglna Ásatrúarfélags þarf að skila tilkynningu að tillögum til lagabreytinga með minnst sex vikna fyrirvara, og rennur sá frestur út mánudaginn 22. september næstkomandi. Hægt er að skila tillögum á netföngin skrifstofa@asatru.is og logsogumadur@asatru.is. Koma þarf fram í tilkynningu hvaða lagagreinum verður lagt til að breyta og vera skýrt í hverju tillagan er fólgin, til dæmis með tillögu að orðalagi. Endanlegt orðalag þarf að liggja fyrir þegar boðað er til allsherjarþings með tveggja vikna fyrirvara, en samkvæmt 38. greininni þarf þá að kynna tillöguna á samfélagsmiðlum félagsins.

Allsherjarþing verður boðað með tveggja vikna fyrirvara á heimasíðu félagsins og á samfélagsmiðlum. Berist lagabreytingatillögur verða þær kynntar samhliða boðuninni. Ennfremur verður auglýst eftir framboðum í þeirri auglýsingu, en framboðsfrestur rennur út viku fyrir allsherjarþing. Framboðum skal skila til kjörnefndar, en í henni sitja Unnar Reynisson gjaldkeri, Jökull Tandri Ámundason Dalverjagoði og Haukur Bragason Lundarmannagoði.