Samkvæmt nýlega birtum tölum frá Þjóðskrá miðað við 1. desember eru skráðir félagar í Ásatrúarfélaginu 6.135 sem er 2,5% fjölgun miðað við 1. desember á síðasta ári. Áður hafði Þjóðskrá birt tölur um skráningar 1. október síðastliðinn og þá var fjöldinn 6.136, og var það í fyrsta skipti sem fjöldinn var kominn yfir 6.000. Fækkað hefur þó um einn í félaginu frá þeim tíma, en eitthvað var um bæði úrskráningar og nýskráningar í félagið í nóvember.
Sé litið yfir langan tíma má segja að fjölgun ásatrúarfólks hafi verið stöðug og jöfn og að fátt virðist hafa áhrif á vöxt félagsins. Þannig fjölgaði með hefðbundnum hætti í félaginu sama ár og þúsundir Íslendinga skráðu sig í félag Zúista sem lofaði öllum endurgreiðslu sóknargjalda árið 2016. Breytingar á lögum um trúfélög sem gerðu lífsskoðunarfélögum kleift að taka við sóknargjöldum árið 2013 virðast heldur engin veruleg áhrif hafa haft á stöðuga fjölgun í Ásatrúarfélaginu.
Greiðslur sóknargjalda til trúfélaga miðast við fjölda félagsmanna þann 1. desember árið þar á eftir, en þær hækkuðu í síðustu fjárlögum um 2,5% frá síðasta ári. Almennt hafa fjárhæðir sóknargjalda ekki haldið í við almenna verðlagsþróun undanfarin misseri. Fram til ársins 2008 voru sóknargjöld fast hlutfall af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti, en síðan 2008 hafa þær verið ákveðnar sérstaklega við fjárlagagerð hvers árs með því að bæta við nýju bráðabirgðaákvæði aftan við lög um sóknargjöld.