Skip to main content

Heiðni kynnt á Vestfjörðum

Eftir júlí 7, 2013desember 17th, 2021Fréttir

Frá blóti á Vestfjörðum

Frá blóti á Vestfjörðum

Undanfarin ár hafa Laufey Eyþórsdóttir, staðgengill Vestfirðingagoða, og Anna Sigríður Ólafsdóttir (Annska), listakona á Ísafirði, verið með kynningar um heiðni í Arnardal fyrir hópa sem heimsækja svæðið sem og aðra sem óska eftir kynningum.  Við báðum Laufeyju að segja okkur frá starfseminni:

Fyrir nokkrum árum byrjaði Annska að hanna ferðina og fékk Eyvind Vestfirðingagoða til að halda blót ásamt því að kynna lykilþætti heiðninnar og kveðskap fyrir fólki. Ég sá um þýðingar á texta og kynningu yfir á ensku, ásamt því að bæta inn upplýsingum um goðafræðina. Fyrsta veturinn saumaði ég búninga sem við notum og ég kynni hefðina á bak við saumaskapinn og mynstursgerðina lauslega. Annska kynnir vestfirskan mat og segir ferðafólkinu sögur af álfum og tröllum í rútunni til og frá Arnardal. Danni eldsmiður frá Þingeyri smíðaði eiðbauginn og eldstæðið. Jóhanna Kjalnesingagoði útbjó gríðarlega flott horn handa okkur. Fleiri heiðingjar af svæðinu voru með fyrst um sinn en í dag sjáum við Annska alfarið um heiðnihlutann.

Þegar beiðni kom inn um kynningu að vetri til tók ég við hlutverki Eyvindar þar sem hann var erlendis. Eftir það fórum við Annska að halda blót fyrir heiðingja á svæðinu og ég hef séð um athafnirnar. Þar hefur Jónína Vestlendingagoði verið mér mikið innan handar varðandi áherslur í blótunum og við erum góðar vinkonur í dag.

Þetta sumar tók eitt skemmtiferðaskipafélag ferðina í sölu og þau koma þrisvar í sumar. Svo eru stundum hópar sem biðja um kynningu og við græjum það þá eftir þörfum.

Auðvitað gætum við þess að fara ekki út í trúboð, heldur veitum eingöngu fræðslu þegar um hana er beðið.

Eyvindur bað mig um að taka við af sér og síðasta haust gerðist ég staðgengill Vestfirðingagoða. Þjálfunarferli goða tekur allavega tvö ár og það er gott að hafa góðan tíma fyrir sér, því þetta er heilmikil skuldbinding. Í augnablikinu er þetta of stór biti fyrir mig að kyngja og ég hef þurft að draga mig aftur út úr formlegu framboði. Aðstæður eru þannig að ég get ekki sinnt goðahlutverkinu eins og mér finnst þurfa. Auðvitað sinni ég áfram fræðslu á svæðinu ef fólk biður um það. Bæði hef ég verið beðin um að koma með fræðslu í trúarbragðafræði í grunnskóla og erlendir háskólanemendur báðu mig um að koma til sín með blót og fræðslu um heiðni í tengslum við nám þeirra um íslenska menningu.

Við Annska höldum okkar blót áfram á svæðinu og allir eru velkomnir á þau. Við munum auglýsa þau á Facebook og svo er hópurinn á svæðinu nokkuð vel tengdur. Það er gaman að sjá góða mætingu á blótin hjá okkur, bæði fólk úr félaginu og aðra sem vilja einfaldlega njóta athafnarinnar og samverunnar.

Laufey Eyþórsdóttir, Ísafirði