Skip to main content

Fyrirlestrar á vormisseri

Eftir desember 4, 2012Fréttir

Eftir áramót fer af stað röð spennandi fyrirlestra þar sem fræðimenn og listamenn bregða nýju og óvæntu ljósi á varðveislu og viðgang hins forna arfs og gilda.
Þar má nefna þá félaga Friðrik Erlingsson og Gunnar Karlsson sem fjalla um teiknimyndina „Þór, hetjur Valhallar“ og varpa ljósi á þá vinnu sem fór fram að
tjaldabaki: Aðlögun goðsagna að nútímanum, hvernig sögur þróast og öðlast sjálfstætt líf og þá þraut að myndgera goð, gyðjur, hetjur og jötna á kíminn hátt án þess
að móðga meðlimi félagsins.

Skáldkonan og þjóðfræðingurinn, Vilborg Davíðsdóttir, fjallar um þrekvirkin Auði og Vígroða og þær frumrannsóknir sem liggja að baki. Enn fremur fjallar Sveinn Yngvi Egilsson um heiðið leynifélag Bessastaðaskólapilta, þversagnakennda afstöðu þeirra gagnvart Eddulist og ýmislegt annað sem hann tæpti á í snilldarritgerðinni „Óðinn sé með yður“ í undirstöðuritinu „Guðamjöður og arnarleir“.

Aðalheiður Guðmundsdóttir verður með erindið „Handverksmaðurinn og hetjan“ og Steindór Andersen bregður ljósi á kenningar og heiti Skáldskaparmála Snorra frá
öndverðu fram á okkar dag.

Fleiri eiga eftir bætast í hópinn og dagskráin verður kynnt á heimasíðu félagsins.

Undirritaður ríður á vaðið á nýju ári þann 5. janúar með erindi sem nefnist „Óðinsgervingar á hvíta tjaldinu“ og þar verða einnig kynntar þrjúbíó samkomur á
sunnudögum þar sem verður farið í gegnum frábærar, góðar, slæmar og sérdeilis vondar kvikmyndir sem tengjast heiðnum minnum.

Hilmar Örn Hilmarsson
Allsherjargoði