Skip to main content

Fyrirlestur og opið hús 25.11.23

Eftir nóvember 13, 2023Fréttir
Laugardaginn 25. nóvember næstkomandi mun Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík halda fyrirlestur á opnu húsi í sal Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð.
Það er ókeypis aðgangur og allir velkomnir, en takmarkað sætaval í boði. Það borgar sig því að mæta tímanlega.
Hér má sjá efni fyrirlestursins:
Týndur og tröllum gefinn? : Glataður og „glataður“ sagnaarfur Íslendinga
Íslendingar kalla sig oft bókaþjóð og búa að ríkum sagnaarfi. Heilmikið af efni var skrifað í handrit, allt fram á 20. öld, og gengu sögur manna á millum. Jafnvel þótt aðrar þjóðir hafi einnig skrifað sögur sínar í handrit hefur hvergi jafnmikið varðveist og á Íslandi, bæði frumsamdar sögur og þýddar. Úr þessum handritum var lesið á kvöldvökum fólki til skemmtunar og dægrastyttingar við vinnu sína. Meðal þeirra sagna sem nú eru varðveittar eru þær sögur sem Íslendingar þekkja vel, þar má nefna Íslendingasögur á borð við Brennu-Njáls sögu eða Egils sögu. Aðrar sagnagreinar eins og fornaldarsögur eru líka vel þekktar eins og Völsunga saga eða Ragnars saga loðbrókar.
En hvað með allt hitt? Vitað er um þó nokkrar sögur sem voru til á einhverjum tímapunkti en hafa ekki varðveist fram á okkar daga, eins og til að mynda Gauks saga Trandilssonar – sem getið er um á handritaspássíu en engin eintök þeirrar sögu hafa varðveist. Annað efni hefur glatast í hamförum, í Kaupmannahafnarbrunanum 1728 þegar fjölmörg handrit úr safni Árna Magnússonar brunnu og öðrum handritum var aðeins með naumindum bjargað, eða þá þegar handritasafnarinn Hannes Þorleifsson safnaði handritum á Íslandi um sumarið 1682 en skip hans fórst, ásamt öllum handritunum, utan við Langanes. Þar er heilmikið efni sem hefur glatast og er það sorgleg tilhugsun. Sumt vitum við að var til, eins og Gauks saga, en um allt hitt sem fórst til dæmis í brunanum eða í þessum skipskaða munum við aldrei fá vitneskju um.
Enn annað efni liggur í geymslum safna og bíður eftir að „finnast“. Fyrir stuttu var fjallað um það í fjölmiðlum þegar nokkur handrit frá 15. til 17. öld fundust í geymslum Landsbókasafnsins þar sem engin vissi af þeim þar. Svo var einnig farið með handrit Bjólfskviðu, sem menn töldu að hefði farist í bruna en fannst áratugum síðar í geymslu safnsins þar og Íslendingurinn Grímur Thorkelín „fann það“. Þar höfum við efni sem talið var glatað með öllu, en fannst svo fyrir tilviljun.
En þá eru einnig í íslenskum handritum varðveittar þær sögur sem fáir eða engir þekkja til. Það er sagnaefni sem er „glatað“, að því leytinu til að enginn hefur veitt því athygli og enginn þekkir þótt það sé vissulega til. Þetta eru oft fornaldarsögur eða riddarasögur sem finna má í yngri handritum og hafa ekki verið búnar til útgáfu enn sem komið er. Á þessum glataða og „glataða“ sagnaarfi okkar Íslendinga verður tæpt á í fyrirlestrinum og að lokum ný bók kynnt stuttlega en þar eru fjórar slíkar sögur, sem eru óútgefnar og hafa lengi legið í handritageymslunum, gefnar út.
Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík, handrita- og textafræðingur, er að ljúka doktorsnámi í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands.