Úr dæmisögu yfir í ævintýri – þróun og tilfærsla Gorms sögu gamla

Eftir ágúst 31, 2016Fréttir

Gorms saga gamla, einnig nefnd Þorkels saga aðalfara, er varðveitt í alls tíu íslenskum handritum frá 17. öld og síðar. Sagan var einnig þekkt á miðöldum í Gesta Danorum, riti Saxa málspaka frá 12. öld, en tilfærsla sögunnar frá Danmörku til Íslands virðist háð siðbreytingunni árið 1550.
Frásögn Saxa var fyrst þýdd yfir á íslensku á 17. öld og er varðveitt í þremur gerðum. A-gerð samanstendur af þremur textavitnum, sem öll eru að vísu sjálfstæðar þýðingar á frásögninni, en fylgja engu að síður frumheimild sinni dyggilega auk þess sem þau nafngreina Saxa málspaka sem
heimildarmann. B-gerð textans, sem er jafnframt sú elsta sem varðveitt er í íslenskum handritum, fylgir A-gerðinni náið en skrifari hefur þó aukið lítillega við textann. A- og B-gerðir sagnanna einkennast af miklum lærdómi, þar sem boðskapur sögunnar er í fyrirrúmi. Að lokum er það C-gerð, sem hefur einangrast sýnilega frá frásögn Saxa og líkist mun
fremur ævintýrasögu, þar sem skemmtanagildi hennar vegur þyngra en boðskapur og lærdómur er ekki jafn áberandi. Sagnagerðirnar virðast hafa þróast í takt við samfélagslegar breytingar sem hafa knúið áfram yfirfærslu þeirra úr rými lærðra skrifara, sem lögðu ríka áherslu á kristilegan lærdóm, yfir í rými alþýðlegra skrifara, sem lögðu áhersluþungann á sagnaskemmtunina.