Jól fyrr og nú

Eftir desember 7, 2012Fréttir

Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú.

Í Lesbók Morgunblaðsins 24. des. 1925 er fjallað um forna jólasiði:

Margar sagnir sanna, að forfeður vorir hafa haldið hátíð mikla um miðsvetrarskeið, og kallað jól. En upphaflega mun þó nafnið jól eigi hafa táknað hátíð, heldur hefur það verið mánaðarnafn eða missera. Gotar í Austur-Evrópu nefndu nóvember fyrri mánuð jóla og desember annan. Hjá Engil Söxum hjetu mánuðirnir desember og janúar jól. Og í fornnorrænu hjet einn mánuður ársins (frá því í nóvember og fram að jólum) Ýlir, og er það nafn dregið af jól.

Flestir telja að sólhvarfahátíð, jólin, sem vér nú höldum helg 25. desember, eru komin í stað jóla heiðingjanna. Fyrst í stað hjelt kirkjan afmælishátíð Krists hinn 6. janúar, en á 4. öld var þessu breytt, vegna þess, að kristnir menn hjeldu alltaf upp á hin heiðnu jól eða tóku þátt í fögnuðinum út af því, að sólin hækkaði aftur göngu. Og þessi breyting var rjettlætt með því, að sólhvörfin væri afmælishátíð hinnar einu sönnu sólar, Krists, „rjettlætisins sólar“. Jólunum má og eigna siði þá, sem bundnir eru við Eldbjargarmessu (7. jan.). Þá drukku menn Eldbjargarminni sem fagnaðaröl út af því að þá kemur sólin aftur með eld sinn.“

Í Lesbók MBL 1949 er fjallað um heiðin jól og kristin jól:

Samkvæmt gamla tímatalinu voru sólhvörf 25. desember. Prokópis segir; á 6tu öld, að íbúar Thule í norðrinu seu í myrkri, um vetur, 40 daga, þegar 35 þeirra eru liðnir, senda þeir menn upp á fjallatinda að vita hvort sjái til sólar. Ef þeir sjá til hennar, byrjar veislufögnuður hjá öllum. Nú var fæðingardagur Krists ókunnur, og var ekki haldinn hátíðlegur fyr en seint á 4ðu öld e.Kr. „Kristur er sólin, sem sigrar myrkrið“, endurhljómar í kristnum ritum. velja menn honum því fæðingardag, þegar sólin, lífgjafinn, færir oss hita og ljós. Armeníumenn, sem tóku kristni einna fyrstir af öllum þjóðum, halda enn jólin 6. janúar, þ.e. á þrettánda.

Páll Vídalín skrifaði um jól og heiðni: „Jól er eldra orð í norrænu máli en kristnin sjálf. Orðið þýðir veisla líkt og orðið blót. Kom það í stað veturnátta blóts heiðingja.“ Elsta vísbending um jólahald er í kvæði um Harald hárfagra sem talið er frá 9. öld. Þar er hann sagður vilja „drekka jól úti“ og „heyja Freys leik“. Í Heimskringlu segir að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri hafi um miðja 10. öld fært jólahald Norðmanna frá einhverri „hökunótt“, sem enginn veit hvenær var, til sama tíma og kristnir menn héldu fæðingarhátíð frelsarans. Líklegast er að tímasetning hinna fornu jóla hafi ekki verið á neinum vissum degi eftir okkar almanaki, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu.

Textinn, sem er lítillega styttur, er fengin að láni af vefsíðunni: http://www.ferlir.is/?id=6944

Egill Baldursson