Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins var haldið í hofinu að Menntasveigi síðastliðinn laugardag. Vel var mætt á þingið og umræður fjörugar. Fundarstjóri var Stefán Pálsson sagnfræðingur.
Alls höfðu borist 37 lagabreytingartillögur og voru samþykktar tillaga Bjarka Sigurðssonar um breytingu á 1. grein laga og lagabreytingartillögur sem lögsögumaður lagði fram fyrir hönd lögréttu og goðaþings voru samþykktar í heild sinni. Öðrum lagabreytingartillögum var vísað til lögréttu til frekari umræðu og úrvinnslu í kjölfar umræðna sem áttu sér stað á þinginu.
Unnar Reynisson og Jóhannes Levy voru sjálfkjörnir í lögréttu og Elfa Hauksdóttir var sjálfkjörin sem varamaður í lögréttu. Óskað var eftir framboði annars varamanns og náði Ásdís Elvarsdóttir kjöri sem varastjórnarmaður. Hulda Sif Ólafsdóttir og Jónas Eyjólfsson voru sjálfkjörin sem skoðunarmenn reikninga og Jökull Tandri Ámundason og Haukur Bragason voru sjálfkjörnir í kjörnefnd.
Á opnum lögréttufundi sunnudaginn 3. nóvember skipti stjórn með sér verkum og verður Guðmundur Rúnar Svansson áfram lögsögumaður, Jóhannes Levy staðgengill lögsögumanns, Unnar Reynisson verður gjaldkeri og Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík ritari. Þá sagði Sædís Hrönn Haveland af sér úr stjórn og var fallist á lausnarbeiðni hennar og tók Elfa Hauksdóttir sæti hennar sem aðalmaður í stjórn út starfsárið.
Samþykktar voru ályktanir í lok allsherjarþings um málefni hálendisins og um framhald lagabreytinga og munu þær birtast á næstu dögum. Þá verður ársskýrsla starfsársins birt, lög félagsins uppfærð á heimasíðunni og fundargerð Allsherjarþings birt á næstu dögum.