Salur Ásatrúarfélagsins hefur gengið í gegnum miklar breytingar og aldrei litið betur út eftir að við fluttum í Síðumúla.
Byrjað var á að auka hillupláss á skrifstofunni en síðan voru keypt ný húsgögn í stað hinna níðþungu og plássfreku sem fyrir voru og höfðu alltaf verið okkur fjötur um fót við að gera salinn vistlegan. Eitt leiddi af
öðru og fljótlega voru rifnar niður gamlar gardínur og dúkar sem enduðu í Góða hirðinum, veggir voru málaðir, gólf- og rimlagluggatjöld hreinsuð og gólfin að endingu bónuð.
Að þessu loknu voru festir upp gallerílistar í salnum svo hægt væri að ráðast í sýningahald og pöntuð sandblástursfilma í gluggana svo héðan í frá sé hægt að hafa dregið frá gluggum og hleypa birtu inn í salinn.
Salurinn okkar er nú orðið sannkallað menningarsetur heiðinna manna. Á miðvikudagskvöldum er leshringur starfandi. Alla laugardaga er húsið opið og þar sem fólk hittist og spjallar saman. Flesta laugardaga eru vönduð fræðsluerindi í boði og síðasta laugardag í hverjum mánuði er fræðsla um heiðinn sið ætluð siðfestufólki og aðstandendum þeirra. Annan hvern sunnudag er „þrjúbíó“ þar sem fólki er boðið að horfa á kvikmyndir sem tengjast heiðni.
Nýjasti galdurinn í Síðumúlanum eru vandaðar sýningar á „heiðinni list“ á veggjum salarins.
Tilvalinn salur fyrir veislur, fundi og fyrirlestra
Í salnum er ágætur tækjabúnaður til fyrirlestrahalds og funda. Salurinn tekur vel 50 manns í sæti og til er borðbúnaður fyrir þann fjölda. Leiguverðið er sanngjarnt og félagsmenn fá afslátt af leigunni. Verið dugleg að kynna salinn okkar og nýtið hann sjálf, okkur veitir ekki af innkomunni.
​
Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði