Greint var frá því á allsherjarþingi þann 2. nóvember að Ásatrúarfélagið hefði með einróma samþykki stjórnar gerst svokallað aðildarfélag að Landvernd og að þrír fulltrúar félagsins hefðu setið aðalfund Landverndar fyrir Ásatrúarfélagið fyrr á árinu. Skýrt var þó tekið fram á þinginu að þessi félagsaðild fæli ekki í sér stuðning við allar áherslur Landverndar. En náttúruverndarmál eru eini málaflokkurinn þar sem Ásatrúarfélagið hefur við vel valin tilefni beitt sér eða tekið afstöðu í pólitískum átakamálum og sérstaklega var rætt um málefni miðhálendisins í tengslum við þessa félagsaðild.
Á allsherjarþingi var svohljóðandi ályktun samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða eftir nokkrar umræður. Þrír greiddu atkvæði gegn ályktuninni.
Hálendi Íslands er helgistaður allra Íslendinga og ef marka má Grágás er það sameign þjóðarinnar allt aftur til landnáms. Ásatrúarfélagið kallar eftir því að almenningur fái skýra aðkomu að stjórnun svæðisins og að stjórnsýsla þess verði með þeim hætti að um hana myndist breið þjóðarsamstaða.
Engin slík samstaða er fyrir hendi um það tómarúm og stjórnleysi sem virðist nú ríkja á stórum hluta þessa helgistaðar. Þetta ástand má ekki verða viðvarandi. Ásatrúarfélagið kallar eftir umræðu og skýrri sýn um framtíð svæðisins.