Skip to main content

Siðfræðsla í Síðumúla

Eftir september 27, 2014desember 17th, 2021Fréttir

Sú hefð hefur skapast að á hádegi síðasta laugardags hvers mánaðar eru siðfræðslutímar í Síðumúla. Fræðslan er einkum ætluð þeim sem hyggjast taka siðmálum en þetta er fjórða árið í röð sem skipulögð siðfræðsla fer fram í húsnæði félagsins. Það er því komin nokkuð skýr mynd á starfið þótt vissulega sé fræðslan í sífelldri mótun.

Stærstur hluti þeirra sem sækja tímana eru unglingar, sem velja siðmál í stað hefðbundinnar fermingar, en foreldrar og forráðamenn sitja gjarna tímana með þeim. Á hverju ári taka einnig nokkrir fullorðnir siðmálum og því sækir fólk á misjöfnum aldri siðfræðsluna. Þessi litríka blanda af ólíku fólki af öllum stigum samfélagsins hefur reynst sérstaklega frjór grundvöllur fyrir skemmtilegar og uppbyggilegar umræður og oft hafa tímarnir orðið lengri en til stóð vegna þess að erfitt hefur verið að hætta.

Í siðfræðslunni er kastljósinu beint að því hvað felst í því að vera heiðin manneskja, þ.m.t. ábyrgð, virðing og heiðarleiki. Starfsemi félagsins er kynnt og fjallað um blót og aðra siði sem hafðir eru í heiðri. Við ræðum um guði okkar og gyðjur, helg tákn og samband okkar við náttúru og umhverfi. Hávamál eru lesin og heilræði þeirra rædd. Fræðslutímarnir eru fyrst og fremst í fundarformi og oft skapast frjálslegar og heimspekilegar vangaveltur um mannlífið og tilveruna þar sem allir taka þátt á sínum forsendum.

Siðmálaathafnir Ásatrúarfélagsins verða sífellt vinsælli með hverju árinu sem líður og stafar það eingöngu af því að athafnirnar spyrjast út meðal fólks. Félagið hefur aldrei auglýst fræðsluna opinberlega og hyggst ekki gera það.

Hver athöfn og undirbúningur hennar mótast af því viðhorfi að hver maður er einstakur og dýrmætur og ævi hans og ákvarðanir mikilvægar. Siðmálaathöfnin er því helguð einum siðmálamanni í stað þess að vera fjöldaathöfn þar sem einstaklingurinn hverfur í fjöldanum. Það er von okkar og trú að sá stóri hópur ungmenna og foreldra þeirra sem hafa kynnst vorum sið í gengum siðfræðsluna eigi eftir að verða stolt og glatt ásatrúarfólk sem heldur kyndlinum á lofti um ókomna tíð.

Þeim sem vilja kynna sér siðfræðslu og siðmálaathafnir er bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins eða láta skrá sig hjá asatru@asatru.is eða johanna[að]asatru.is.

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði