Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Félagsaðild að Landvernd dregin til baka að sinni

Eftir Fréttir

Á fundi lögréttu mánudagskvöldið 9. desember síðastliðinn var farið yfir viðbrögð og umræður innan félagsins eftir að greint var frá því hér á heimasíðu félagsins að ályktað hefði verið um málefni hálendisins á allsherjarþingi, og að fyrr á árinu hefði félagið gerst svokallað aðildarfélag að Landvernd.

Eftir nokkrar umræður var einróma samþykkt tillaga formanns stjórnar um að draga félagsaðildina til baka að sinni, og veita þess í stað stakan styrk til Landverndar að fjárhæð kr. 81.000. Þá yrði síðar á starfsárinu boðað til almenns félagafundar þar sem umræðuefnið yrði umhverfisvernd og Ásatrúarfélagið og frekari umræða yrði á þeim vettvangi um meðal annars hugsanlegt samstarf félaganna i málum þar sem áherslur beggja fara saman og hvernig það yrði best útfært. Eru félagsmenn hvattir til að mæta þegar þar að kemur og ræða málin þar.

Ekki er búið að ákveða tímasetningu á slíkum fundi en að hann yrði þó í síðasta lagi stuttu fyrir sigurblót.

Lög Ásatrúarfélagsins eftir allsherjarþing

Eftir Fréttir

Á allsherjarþingi Ásatrúarfélagsins 2. nóvember sl. voru samþykktar breytingar á lögum félagsins, og eru því lög félagsins birt hér að neðan í núverandi mynd eftir breytingar, og teljast þau hafa tekið gildi í þessari mynd frá og með þessari birtingu. Samþykktar voru allar tillögur til lagabreytinga sem lögsögumaður bar upp í umboði stjórnar og upphaflega voru settar saman af goðaþingi, og einnig samþykkt ein lagabreytingatillaga frá Bjarka Sigurðssyni. Öðrum lagabreytingatillögum var vísað til laganefndar til frekari umfjöllunar. Einnig er hægt að nálgast lögin hér sem .pdf-skjal.

Allsherjarþing samþykkti einnig ályktun um skipan laganefndar og áframhaldandi störf við breytingar á lögum félagsins. Skipan laganefndar var rædd á fundi lögréttu fyrr í vikunni en afgreiðslu var frestað til næsta fundar. Vonast er til að nefndin taki starfa fljótlega eftir áramót.

 

 

Lög Ásatrúarfélagsins

1. grein
Félagið heitir Ásatrúarfélagið. Félagið starfar samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess er allt landið. Félagar verða sjálfkrafa allir þeir sem skrá sig í félagið hjá Þjóðskrá.

2. grein
Tilgangur félagsins er að starfa að eflingu vors siðar, sjá um trúarathafnir og trúarlega þjónustu við félagsmenn, stuðla að góðu siðferði, lífsskoðunum og allsherjarreglu sem og að efla virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni.

3. grein
Allsherjargoði er æðsti trúarlegi embættismaður Ásatrúarfélagsins og jafnframt forstöðumaður þess. Hann skal kjósa samkvæmt sérstökum reglum um kjör allsherjargoða.

4. grein
Aðrir trúarlegir embættismenn félagsins nefnast goðar. Skulu þeir tilnefndir af allsherjargoða og lögréttu og gangast undir leiðsögn allsherjargoða eða staðgengils hans í tvö ár til reynslu. Allsherjarþing staðfestir skipun goða er reynslutíma er lokið og gildir hún til fimm ára. Skal hver goði hafa stuðning 30 félagsmanna.

5. grein
Allsherjarþing fer með æðsta vald í félaginu. Skal það haldið árlega á fyrsta laugardegi eftir fyrsta vetrardag. Allir félagar Ásatrúarfélagsins eiga rétt til setu á allsherjarþingi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Seturéttur skal miðast við félagatal eins og það er fimm dögum fyrir allsherjarþing. Atkvæðisréttur og kjörgengi miðast við 18 ára aldur.
Verkefni allsherjarþings skulu vera þessi:
1. Skýrsla lögréttu borin upp til umræðu og staðfestingar.
2. Reikningar lagðir fram til umræðu og staðfestingar.
3. Lagabreytingar og aðrar tillögur.
4. Kosning í lögréttu.
5. Kosning skoðunarmanna reikninga, nefnda og í aðrar trúnaðarstöður.
6. Önnur mál.

6. grein
Lögrétta er æðsta ráð og jafnframt framkvæmdastjórn Ásatrúarfélagsins. Í henni sitja fimm félagsmenn kjörnir af allsherjarþingi og skulu þeir skipta með sér embættum. Embættin eru lögsögumaður, staðgengill lögsögumanns, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Allsherjarþing skal einnig kjósa tvo menn til vara. Auk þeirra eiga sæti í lögréttu allsherjargoði og einn fulltrúi sem goðar tilnefna úr sínum röðum. Allir goðar hafa rétt til setu á fundum lögréttu með málfrelsi og tillögurétti. Hver lögréttumaður fer með eitt atkvæði.

7. grein
Reikningsár Ásatrúarfélagsins er frá 1. september til 31. ágúst ár hvert.

8. grein
Lög þessi eru grunnlög Ásatrúarfélagsins og verður þeim aðeins breytt með auknum meirihluta greiddra atkvæða á lögmætu allsherjarþingi að undangenginni kynningu. Nánari reglur félagsins er að finna í starfsreglum félagsins. Þeim verður aðeins breytt með meirihluta atkvæða á allsherjarþingi.

9. grein
Slíta má félaginu með auknum meirihluta atkvæða á tveimur reglulegum allsherjarþingum að undangenginni tillögu þess efnis. Á síðara allsherjarþinginu skal ákveðið hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins.

 

 

Starfsreglur Ásatrúarfélagsins

I. Um vorn sið

1. gr.
Ásatrú er vor siður. Þó er átrúnaður ekki bundinn við æsi eina heldur er heimilt að blóta önnur goð, landvætti og aðrar máttugar verur. Ásatrúarmenn iðka trú sína á þann hátt sem hverjum og einum hentar á meðan ekki brýtur í bága við landslög eða heiðið siðgæði.

2. gr.
Inntak vors siðar er einkum að finna í Hávamálum. Helsta inntak siðarins er ábyrgð einstaklings á sjálfum sér og gerðum sínum. Siðurinn byggir á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir jörðinni og náttúrunni.

3. gr.
Ásatrúarmenn sameinast um heitið: „Hefjum til vegs fornan sið og forn menningarverðmæti.“

 

II. Um trúarathafnir

4. gr.
Fjögur höfuðblót skulu haldin árlega og fylgja þau hinu forna missera- og vikutali. Hið fyrsta skal haldið fyrsta vetrardag, annað á jólum um vetrarsólhvörf, hið þriðja á sumardaginn fyrsta og hið fjórða á sumarsólstöðum á Þingvöllum.

5. gr.
Ásatrúarmenn geta helgað goðum líkneski og önnur tákn en ekki er skylda hvers og eins að tilbiðja þau. Ekki má vanvirða goð eða annað það sem heilagt er.

6. gr.
Heimilt er og sjálfsagt að fræða aðra um Ásatrúarfélagið og heiðinn sið en trúboð er óþarft.

 

III. Um allsherjargoða

7. gr.
Allsherjargoði helgar höfuðblót sem haldin eru í nafni félagsins. Hann vinnur einnig opinber embættisverk og vígsluathafnir sem honum eru faldar. Skal félagið eiga reikning sem allsherjargoði hefur aðgang að til að standa straum af þeim útgjöldum sem hann stofnar til í störfum sínum fyrir félagið.

8. gr.
Allsherjargoði skal leiðbeina um trúarefni og siðareglur sé þess óskað en hefur ekki úrskurðarvald í þeim efnum.

9. gr.
Allsherjargoði er opinber talsmaður félagsins um trúarefni. Staða hans er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að halda sig utan við deilumál og þrætur sem ekki eru samboðnar virðingu hans jafnt innan félags sem utan.

10. gr.
Allsherjargoði á sæti í lögréttu en getur ekki gegnt starfi lögsögumanns eða annarra fulltrúa sem allsherjarþing kýs til setu í lögréttu.

11. gr.
Lögrétta skal skipa einn goða til að gegna embætti allsherjargoða í forföllum hans í samráði við allsherjargoða.

12. gr.
Gerist allsherjargoði sekur um refsiverða háttsemi, alvarleg embættisglöp eða brot á lögum og reglum félagsins getur lögrétta vikið honum úr embætti tímabundið. Skal þá þegar boða til aukaallsherjarþings sem tekur endanlega ákvörðun um hvort allsherjargoða verði vikið úr embætti.

13. gr.
Starfandi goðar sem setið hafa í a.m.k. fimm ár geta boðið sig fram til allsherjargoða að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1. Hafa óflekkað mannorð, vera bús síns ráðandi og lögráða.
2. Hafa skýra hugmynd um það í hverju embætti allsherjargoða er fólgið.
3. Hafa haldgóða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið.
4. Hafa haldgóða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um trúfélög.
5. Hafa skriflegan stuðning 50 félagsmanna, 18 ára eða eldri.

14. gr.
Framboðum skal skila til lögsögumanns eða kjörnefndar eigi síðar en sex vikum fyrir allsherjarþing. Lögrétta úrskurðar um hvort frambjóðandi uppfylli skilyrði skv. 13. gr. og um gildi stuðningsmannalista hans. Sé lögréttumaður í framboði skal hann víkja af fundi meðan lögrétta úrskurðar um hæfi frambjóðenda.

15. gr.
Sé einungis einn frambjóðandi í kjöri telst hann sjálfkjörinn uppfylli hann öll skilyrði 13. gr. Bjóði sig enginn fram skal staðgengill allsherjargoða gegna embættinu fram til næsta allsherjarþings.

16. gr.
Allsherjarþing kýs allsherjargoða. Hljóti enginn frambjóðandi hreinan meirihluta skal þegar í stað fara fram önnur kosning milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Kjöri skal þegar lýst opinberlega og skal nýr allsherjargoði vinna eið að embætti sínu.

17. gr.
Kjörtímabil allsherjargoða er fimm ár. Þegar kjörtímabili allsherjargoða er að ljúka skal auglýst eftir framboðum og boðað til kosninga samkvæmt 13.–16. gr.

 

IV. Um goða

18. gr.
Við val á goða í embætti skal taka mið af eftirfarandi:
1. Að hann sé eldri en 30 ára.
2. Að hann hafi óflekkað mannorð, sé bús síns ráðandi og lögráða.
3. Að hann hafi skýra hugmynd um það í hverju embætti goða sé fólgið.
4. Að hann hafi góða og fræðilega þekkingu á ásatrú og heiðnum sið, haldgóða reynslu í félagsstarfi og hæfni í mannlegum samskiptum.
5. Að hann hafi góða þekkingu á lögum og reglum Ásatrúarfélagsins og lögum um skráð trúfélög.

19. gr.
Goðaskipunarnefnd er lokuð stoðnefnd goða og skal skipuð á goðaþingi annað hvort ár. Í nefndinni skulu sitja fimm goðar og getur nefndin kallað allsherjargoða til fundar við sig þótt hann hafi ekki atkvæðisrétt. Nefndin skal meta starfshæfi skv. 18. gr. Samhljóða niðurstaða goðaskipunarnefndar skal lögð fyrir lögréttu sem úrskurðar um hæfi viðkomandi. Samþykkt goðaefni nýtur tilsagnar í tvö ár og skilar að því loknu til lögréttu skriflegum stuðningi 30 félagsmanna, 18 ára eða eldri. Lögrétta staðfestir endanlega skipun í embætti.

20. gr.
Sækist goði eftir því að verða endurskipaður að loknum fimm ára skipunartíma getur hann sótt um endurskipun til lögréttu félagsins. Lögrétta úrskurðar hvort starfandi goði hafi uppfyllt skyldur sínar í starfi sækist hann eftir að verða endurskipaður. Allsherjarþing staðfestir endurskipan goða og telst allsherjarþing upphaf tímabilsins.

21. gr.
Goði er trúarlegur embættismaður félagsins. Hann tekur virkan þátt í blótum og athöfnum sem haldnar eru í nafni þess auk þess sem hann skal halda a.m.k. eitt blót á ári. Einnig annast hann opinber embættisverk og vígsluathafnir hafi hann fengið til þess heimild hjá ráðherra. Goði þiggur greiðslu fyrir athafnir og vígslur samkvæmt gjaldskrá sem goðar setja sér og er staðfest af lögréttu.

22. gr.
Goði skal leiðbeina um trúarefni og siðareglur sé þess óskað en hefur ekki úrskurðarvald í þeim efnum.

23. gr.
Staða goða er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að halda sig utan við deilumál og þrætur sem ekki eru samboðnar virðingu hans jafnt innan félags sem utan. Goði sem sinnt hefur embætti a.m.k. tíu ár en er hættur störfum vegna aldurs eða veikinda heldur virðingarheitinu goði án þess að sinna skyldum við embættisverk eða blóthald.

24. gr.
Gerist goði sekur um refsiverða háttsemi, alvarleg embættisglöp eða brot á lögum og reglum félagsins getur lögrétta vikið honum úr embætti fram að næsta allsherjarþingi sem tekur endanlega ákvörðun um hvort goða skuli vikið úr embætti.

25. gr.
Goðar skulu halda árlegt goðaþing. Á goðaþingi skulu tekin fyrir mál er varða starfssvið þeirra, réttindi og skyldur. Goðaþing skal tilnefna fulltrúa goða í lögréttu annað hvort ár og fimm fulltrúa í goðaskipunarnefnd annað hvort ár.

 

V. Um fundarsköp

26. gr.
Almennar reglur um fundarsköp skulu gilda á allsherjarþingi. Til allsherjarþings skal boðað í Vorum sið og auglýsa það á vefmiðlum félagsins minnst tveimur vikum fyrir allsherjarþing. Óska skal eftir framboðum stjórnarmanna og varastjórnarmanna til lögréttu í auglýsingunni. Allsherjarþing skal haldið á þeim stað sem lögrétta ákveður hverju sinni. Allsherjarþing er aðeins lögmætt að til þess sé löglega boðað. Verkefna þingsins skal getið í fundarboði.

27. gr.
Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja fyrir minnst viku fyrir allsherjarþing, undirritaðir af endurskoðanda og skoðunarmönnum reikninga ásamt lögsögumanni og gjaldkera.

28. gr.
Einróma samþykki lögréttu þarf fyrir öllum meiriháttar framkvæmdum og fjárfestingum sem félagið ræðst í. Ef það næst ekki skal málinu vísað til allsherjarþings. Fyrirhuguð verkefni skulu rækilega kynnt ásamt fjárhagsáætlun á þinginu.

29. gr.
Framboðum til lögréttu skal skila skriflega til kjörnefndar í síðasta lagi viku fyrir allsherjarþing. Formaður kjörnefndar greinir allsherjarþingi frá þeim framboðum sem borist hafa. Sé ekki sjálfkjörið í stjórn skal kosning vera skrifleg. Kjörnir fulltrúar í lögréttu skulu vera kosnir til tveggja ára í senn, þrír annað árið en tveir hitt árið. Varamenn skal kjósa til eins árs í senn. Eftir sömu reglum skal kjósa til eins árs í senn óháðan endurskoðanda svo og skoðunarmenn reikninga úr röðum félagsmanna.
Þriggja manna kjörnefnd starfar í aðdraganda allsherjarþings og skal hún sjá um undirbúning og framkvæmd kosninga á allsherjarþingi. Viðkomandi einstaklingar mega ekki sjálfir vera í framboði til setu í lögréttu. Skulu tveir kjörnefndarmenn vera kosnir á allsherjarþingi en einn valinn af lögréttu. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.

30. gr.
Skylt er að boða til aukaallsherjarþings óski að minnsta kosti fimm lögréttumanna þess.

 

VI. Um lögréttu

31. gr.
Lögrétta skipar í nefndir og hefur umsjón með starfi þeirra. Nefndir geta leitað álits lögréttu, goða eða félagsmanna um mál sem þær hafa til meðferðar. Nefndir skila niðurstöðum sínum til lögréttu sem leggur þær fyrir allsherjarþing.

32. gr.
Lögrétta kemur saman minnst þrisvar sinnum á ári: fyrsta sunnudag eftir allsherjarþing, fyrsta laugardag í mars og fyrsta laugardag í september. Almennum félagsmönnum er heimilt að sitja fasta lögréttufundi. Ekki þarf að auglýsa lögréttufundi.

 

VII. Um verkaskiptingu innan félagsins

33. gr.
Félagsmenn geta beint málum til lögréttu, goða eða allsherjarþings eftir atvikum.

34. gr.
Allsherjarþing getur beint þingmálum til lögréttu.

35. gr.
Lögrétta fjallar um þau mál sem snúa að daglegum störfum félagsins og sér um stjórn þess, innra starf og skipulag. Goðar fjalla um þau mál sem snúa að athöfnum og trúarlífi félagsins. Allsherjargoði kemur fram fyrir hönd félagsins en getur falið það öðrum goða eða lögréttumanni eftir atvikum.

 

VIII. Um lögsögumann

36. gr.
Lögsögumaður gegnir hlutverki framkvæmdastjóra félagsins. Hann varðveitir skjöl og lagatexta. Hann kallar saman fundi, stýrir þeim eða skipar fundarstjóra. Lögsögumaður getur í umboði lögréttu kallað menn til verka í þágu félagsins. Honum er skylt að boða til fundar óski að minnsta kosti tveir lögréttumenn þess.

37. gr.
Lögsögumaður getur hvorki gegnt öðrum stjórnarstörfum né embætti allsherjargoða.

IX. Um lög og reglur

38. gr.
Tillögur að breytingum á lögum og reglum félagsins skulu hafa borist lögsögumanni eigi síðar en sex vikum fyrir þingið og þurfa að hafa verið kynntar rækilega á vefmiðlum félagsins minnst tveimur vikum fyrir allsherjarþing.

39. gr.
Reglur þessar eru nánari útfærsla og skilgreiningar á lögum félagsins. Verður þeim aðeins breytt með meirihlutasamþykkt allsherjarþings.

Ásatrúarfólki fjölgar um 2,5% milli ára

Eftir Fréttir

Samkvæmt nýlega birtum tölum frá Þjóðskrá miðað við 1. desember eru skráðir félagar í Ásatrúarfélaginu 6.135 sem er 2,5% fjölgun miðað við 1. desember á síðasta ári. Áður hafði Þjóðskrá birt tölur um skráningar 1. október síðastliðinn og þá var fjöldinn 6.136, og var það í fyrsta skipti sem fjöldinn var kominn yfir 6.000. Fækkað hefur þó um einn í félaginu frá þeim tíma, en eitthvað var um bæði úrskráningar og nýskráningar í félagið í nóvember.

Sé litið yfir langan tíma má segja að fjölgun ásatrúarfólks hafi verið stöðug og jöfn og að fátt virðist hafa áhrif á vöxt félagsins. Þannig fjölgaði með hefðbundnum hætti í félaginu sama ár og þúsundir Íslendinga skráðu sig í félag Zúista sem lofaði öllum endurgreiðslu sóknargjalda árið 2016. Breytingar á lögum um trúfélög sem gerðu lífsskoðunarfélögum kleift að taka við sóknargjöldum árið 2013 virðast heldur engin veruleg áhrif hafa haft á stöðuga fjölgun í Ásatrúarfélaginu.

Greiðslur sóknargjalda til trúfélaga miðast við fjölda félagsmanna þann 1. desember árið þar á eftir, en þær hækkuðu í síðustu fjárlögum um 2,5% frá síðasta ári. Almennt hafa fjárhæðir sóknargjalda ekki haldið í við almenna verðlagsþróun undanfarin misseri. Fram til ársins 2008 voru sóknargjöld fast hlutfall af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti, en síðan 2008 hafa þær verið ákveðnar sérstaklega við fjárlagagerð hvers árs með því að bæta við nýju bráðabirgðaákvæði aftan við lög um sóknargjöld.

Landvættablót

Eftir Fréttir
Landvættablót verða haldin á nokkrum stöðum á landinu þann 1. desember.
Á Þingvöllum kl 18 við Almannagjá.
Á Reyðarfirði á tjaldstæðinu kl 18.
Við Garðskagavita á Reykjanesi kl 18.
Hamarstúni á Akureyri kl 18.
Við Völuspárreitinn í Bolungarvík kl 20

Ályktun um hálendið og félagsaðild að Landvernd

Eftir Fréttir


Greint var frá því á allsherjarþingi þann 2. nóvember að Ásatrúarfélagið hefði með einróma samþykki stjórnar gerst svokallað aðildarfélag að Landvernd og að þrír fulltrúar félagsins hefðu setið aðalfund Landverndar fyrir Ásatrúarfélagið fyrr á árinu. Skýrt var þó tekið fram á þinginu að þessi félagsaðild fæli ekki í sér stuðning við allar áherslur Landverndar. En náttúruverndarmál eru eini málaflokkurinn þar sem Ásatrúarfélagið hefur við vel valin tilefni beitt sér eða tekið afstöðu í pólitískum átakamálum og sérstaklega var rætt um málefni miðhálendisins í tengslum við þessa félagsaðild.

Á allsherjarþingi var svohljóðandi ályktun samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða eftir nokkrar umræður. Þrír greiddu atkvæði gegn ályktuninni.

Hálendi Íslands er helgistaður allra Íslendinga og ef marka má Grágás er það sameign þjóðarinnar allt aftur til landnáms. Ásatrúarfélagið kallar eftir því að almenningur fái skýra aðkomu að stjórnun svæðisins og að stjórnsýsla þess verði með þeim hætti að um hana myndist breið þjóðarsamstaða. 

Engin slík samstaða er fyrir hendi um það tómarúm og stjórnleysi sem virðist nú ríkja á stórum hluta þessa helgistaðar. Þetta ástand má ekki verða viðvarandi. Ásatrúarfélagið kallar eftir umræðu og skýrri sýn um framtíð svæðisins.

Tilnefningar óskast í laganefnd

Eftir Fréttir

Á síðustu tveimur allsherjarþingum hafa verið samþykktar lagabreytingatillögur sem núverandi lögsögumaður hefur lagt fram í samráði við lögréttu. Á síðasta ári var fyrirkomulagi kosninga breytt og í ár komu tillögur frá goðaþingi sem lutu að starfi goða innan félagsins.

Svohljóðandi ályktun var samþykkt á allsherjarþingi síðasta laugardag:

Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins felur lögréttu að halda áfram yfirfara lög félagsins og kallar eftir því að fá á næsta Allsherjarþingi tillögur um að félagið taki upp starfs- og siðareglur og að með þeim setji félagið sér reglur um meðferð trúnaðarmála. Einnig felur allsherjarþing lögréttu að skipa laganefnd og gera almennum félagsmönnum kleift að taka sæti í henni.

Í samræmi við þessa ályktun er hér með auglýst eftir einstaklingum sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi slíkrar nefndar. Senda skal tillögur á logsogumadur@asatru.is. Frestur til að skila inn er til 5. desember næstkomandi.

Niðurstöður allsherjarþings og nýkjörin lögrétta

Eftir Fréttir

Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins var haldið í hofinu að Menntasveigi síðastliðinn laugardag. Vel var mætt á þingið og umræður fjörugar. Fundarstjóri var Stefán Pálsson sagnfræðingur.

Alls höfðu borist 37 lagabreytingartillögur og voru samþykktar tillaga Bjarka Sigurðssonar um breytingu á 1. grein laga og lagabreytingartillögur sem lögsögumaður lagði fram fyrir hönd lögréttu og goðaþings voru samþykktar í heild sinni. Öðrum lagabreytingartillögum var vísað til lögréttu til frekari umræðu og úrvinnslu í kjölfar umræðna sem áttu sér stað á þinginu.

Unnar Reynisson og Jóhannes Levy voru sjálfkjörnir í lögréttu og Elfa Hauksdóttir var sjálfkjörin sem varamaður í lögréttu. Óskað var eftir framboði annars varamanns og náði Ásdís Elvarsdóttir kjöri sem varastjórnarmaður. Hulda Sif Ólafsdóttir og Jónas Eyjólfsson voru sjálfkjörin sem skoðunarmenn reikninga og Jökull Tandri Ámundason og Haukur Bragason voru sjálfkjörnir í kjörnefnd.

Á opnum lögréttufundi sunnudaginn 3. nóvember skipti stjórn með sér verkum og verður Guðmundur Rúnar Svansson áfram lögsögumaður, Jóhannes Levy staðgengill lögsögumanns, Unnar Reynisson verður gjaldkeri og Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík ritari. Þá sagði Sædís Hrönn Haveland af sér úr stjórn og var fallist á lausnarbeiðni hennar og tók Elfa Hauksdóttir sæti hennar sem aðalmaður í stjórn út starfsárið.

Samþykktar voru ályktanir í lok allsherjarþings um málefni hálendisins og um framhald lagabreytinga og munu þær birtast á næstu dögum. Þá verður ársskýrsla starfsársins birt, lög félagsins uppfærð á heimasíðunni og fundargerð Allsherjarþings birt á næstu dögum.

Veturnáttablót

Eftir Fréttir

Þurra skíða

ok þakinna næfra

þess kann maðr mjöt,

þess viðar,

er vinnask megi

mál ok misseri.

 

Vetrarnætur eða veturnætur eru forn tímamót sem haldin eru hátíðleg í október til að fagna upphafi vetrar. Goðar Ásatrúarfélagsins halda blót víðsvegar um landið!

 

Anna Leif Auðar Elídóttir, nýr goði Ásatrúarfélagsins, helgar sitt fyrsta blót á Akranesi, klukkan 18:00.

Hilmar Örn Hilmarsson helgar blót í Öskjuhlíð, klukkan 20:00 í Hofi.

Sigurður Mar helgar blót í Ólafsfirði, klukkan 17:00 við Menntaskólann.

Elfar Logi helgar blót á Orrustutanga á Ströndum. (frestað)

Ragnar helgar blót á Hamarkotstúni á Akureyri. Veturnáttablót er haldið fyrsta vetrardag klukkan 16:00 á Hamarkotstúni á Akureyri. Blót þetta er helgað Óðni, uppskeru haustsins og öllum þeim lifandi verum sem hverfa til hinnar eilífu hringrásar.

Baldur helgar blót á Vestdalseyri. 26. okt. Fyrsti vetrardagur. Kl. 14:00. Félagsfundur Ásatrúarfólks í Austurlandsgoðorði í Sæbóli, hús björgunarsveitarinnar Ísólfs- Hafnargötu 17 á Seyðisfirði. Dagskrá má sjá á Ásatrúarfólk í Austurlandsgoðorði. 26. okt. Kl. 16:00. Veturnáttablót á Vestdalseyri Seyðisfirði. Ath. Blótið var auglýst á dagatali þann 27. Allir velkomnir

 

Lagabreytingatillögur

Eftir Fréttir

Hér eru þær lagabreytingatillögur sem lagðar verða fyrir á komandi Allsherjarþingi.

Lögsögumaður leggur eftirfarandi fram fyrir hönd stjórnar, og koma þær að mestu frá Goðaþingi.

https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Lagabreytingartillogur-stjornar.pdf

Unnar Reynisson, varamaður í lögréttu, sendi inn svohljóðandi tölvupóst með lagabreytingatillögu:

Hér kemur tillaga að lagabreytingu sem ég hef sent inn áður nú
með númeraðri grein.

Greinin kæmi undir liðnum Starfsreglum Ásatrúarélags. Mundi hún
verða grein 3 undir þeim liði, núverandi grein 3 yrði þá grein 4
osfr.

Í liðnum _Um Ásatrúarfélagið_ á vefsíðu félagsins stendur:
„Ásatrúarfélagið vill hefja til vegs og virðingar fornan sið og
forn menningarverðmæti. Það er einnig vilji félagsins að auka
skilning og áhuga á þjóðtrú og gömlum hefðum. Þetta vill
félagið gera án þess að gera lítið úr öðrum trúarsiðum,
gömlum eða nýjum, eða menningu annarra þjóða. Ofstæki eða hatur
í garð annarra getur aldrei samrýmst stefnu félagsins.…“

Mikilvægt er að þessi orð séu byggð á lögum félagsins.

Tillaga að nýrri grein:

_3. grein._

_Lítur Ásatrúarfélagið svo á að allir menn séu jafnir, burtséð
frá uppruna, kyni, kynferði, trúarbrögðum eða öðru sem gæti
greint þá sundur. Ofstæki og hatur í garð annarra á ekki erindi á
vettvangi félagsins, hvorki með orðræðu eða öðrum hætti. _

Rökstuðningur: Hér er ekki boðuð ritskoðun heldur er lagt upp með
öllum geti liðið vel á vettvangi félagsins; í opnu húsi,
handverkskvöldum, blótum, leshópum eða hverjum öðrum viðburðum.
Hatursfull umræða og ónærgætið orðalag getur snert ýmsa og
sært, hvort sem það beinist gegn þeim sjálfum, fjölskyldum
þeirra, vinum eða öðrum.

Bjarki Sigurðsson sendi 22 lagabreytingatillögur og þær fylgja hér að neðan.
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Log-Asatruarfelagsins-1.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Log-Asatruarfelagsins-2.-gr-.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Log-Asatruarfelagsins-4.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Log-Asatruarfelagsins-8.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Log-Asatruarfelagsins-9.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Log-Asatruarfelagsins-ny-5.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-ny-25.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-1.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-2.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-6.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-7.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-13.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-14.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-15.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-18.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-19.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-20.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-25.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-29.-gr-.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-34.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-35.-gr.pdf
https://asatru.is/wp-content/uploads/2024/10/Starfsreglur-Asatruarfelagsins-37.-gr.pdf

Allsherjarþing 2024

Eftir Fréttir

Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins 2024 verður haldið í hofi félagsins að Menntasveigi 15 í Öskjuhlíð laugardaginn 2. nóvember kl 13:30. Allir félagar Ásatrúarfélagsins eiga rétt til setu á allsherjarþingi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Atkvæðisréttur og kjörgengi miðast við 18 ára aldur.

Þá er hér með auglýst eftir framboðum í stjórn félagsins og varamönnum í stjórn, og einnig í önnur embætti sem kjörið er í á allsherjarþingi. Framboðsfrestur rennur út laugardaginn 26. október, en þeir sem bjóða sig fram til stjórnar en ná ekki kjöri geta þó boðið sig fram sem varamenn í stjórn á þinginu. Framboðum skal skila til kjörnefndar en í henni sitja:


Jökull Tandri Ámundason (dalverjagodi@gmail.com)

Alda Vala Ásdísardóttir (aldavalaa@gmail.com)

Óttar Ottósson (ottarottosson56@gmail.com)

Alls hafa borist 37 lagabreytingatillögur frá þremur aðilum:
Lögsögumaður leggur fram fyrir hönd stjórnar 14 tillögur sem komu frá goðaþingi og eru staðfestar af lögréttu með lítilsháttar breytingum.
Bjarki Sigurðsson leggur fram 22 lagabreytingatillögur.
Unnar Reynisson, varamaður í stjórn, leggur fram tillögu um nýja grein í starfsreglum.

Dagskrá:

  1. Skýrsla lögréttu borin upp til umræðu og staðfestingar.
  2. Reikningar lagðir fram til umræðu og staðfestingar.
  3. Lagabreytingar og aðrar tillögur.
  4. Kosning í lögréttu.
  5. Kosning skoðunarmanna reikninga, í nefndir og í aðrar trúnaðarstöður.
  6. Önnur mál.