Skip to main content
All Posts By

Ásatrúarfélagið

Ósæmileg aðför að múslímum hörmuð

Eftir Fréttir

Fulltrúar eftirtalinna trúfélaga, sem öll eiga aðild að Samráðsvettvangi trúfélaga, harma þá ósæmilegu aðför að múslímum, sem átti sér stað á byggingarlóð Félags múslima á Íslandi þann 27. nóvember síðastliðinn, og leggja jafnframt áherslu á mikilvægi þess að allir fari að íslenskum lögum og virði fullt trúfrelsi allra landsmanna.

Ásatrúarfélagið
Bahá’ísamfélagið
Búddistasamtökin SGI á Íslandi
Félag múslima á Íslandi
FFWPU – Heimsfriðarsamband fjölskyldna og sameiningar
Fríkirkjan Vegurinn
Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu
Kirkja sjöunda dags aðventista á Íslandi
Menningarsetur múslima á Íslandi
Rómversk-kaþólska kirkjan
Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík
Þjóðkirkjan

Sigurlaug Lilja nýr lögsögumaður

Eftir Fréttir

Á opnum lögréttufundi í dag var Sigurlaug Lilja Jónasdóttir kosin lögsögumaður. Hún hefur verið staðgengill lögsögumanns í tvö ár en hefur nú sætaskipti við Hall Guðmundsson sem verður nú staðgengill hennar.

Nýr ritari lögréttu er Kári Pálsson en Hulda Sif Ólafsdóttir er sem fyrr gjaldkeri og Hrafnhildur Borgþórsdóttir meðstjórnandi.

Hilmar Örn endurkjörinn til fimm ára

Eftir Fréttir

Hilmar Örn Hilmarsson

Hilmar Örn Hilmarsson

Hilmar Örn Hilmarsson var einn í kjöri til til allsherjargoða til næstu fimm ára á allsherjarþingi í dag. Hann greindi frá því að hann hefði verið búinn að ákveða að draga sig í hlé en hætt við það og fallist á að sitja eitt kjörtímabil enn.

Alda Vala Ásdísardóttir og Sigurður Mar Halldórsson eru nýir goðar.

Tveir aðalmenn voru kosnir í lögréttu, Hallur Guðmundsson og Kári Pálsson. Hallur hefur verið lögsögumaður síðustu tvö ár en Kári er nýr lögréttumaður.  

Silke Schurack og Teresa Dröfn Njarðvík voru kosnar í varastjórn.

Bjarki Karlsson, Lenka KováÅ™ová og Böðvar Þórir Gunnarsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.

Lögsögumaður verður kosinn úr hópi lögréttumanna á opnum lögréttufundi í Síðumúla á morgun.

Sjá: fundargerð allsherjarþings 2013.

Salurinn eins og nýr

Eftir Fréttir

Salur Ásatrúarfélagsins hefur gengið í gegnum miklar breytingar og aldrei litið betur út eftir að við fluttum í Síðumúla.

Byrjað var á að auka hillupláss á skrifstofunni en síðan voru keypt ný húsgögn í stað hinna níðþungu og plássfreku sem fyrir voru og höfðu alltaf verið okkur fjötur um fót við að gera salinn vistlegan. Eitt leiddi af
öðru og fljótlega voru rifnar niður gamlar gardínur og dúkar sem enduðu í Góða hirðinum, veggir voru málaðir, gólf- og rimlagluggatjöld hreinsuð og gólfin að endingu bónuð.

Að þessu loknu voru festir upp gallerílistar í salnum svo hægt væri að ráðast í sýningahald og pöntuð sandblástursfilma í gluggana svo héðan í frá sé hægt að hafa dregið frá gluggum og hleypa birtu inn í salinn.

Salurinn okkar er nú orðið sannkallað menningarsetur heiðinna manna. Á miðvikudagskvöldum er leshringur starfandi. Alla laugardaga er húsið opið og þar sem fólk hittist og spjallar saman. Flesta laugardaga eru vönduð fræðsluerindi í boði og síðasta laugardag í hverjum mánuði er fræðsla um heiðinn sið ætluð siðfestufólki og aðstandendum þeirra. Annan hvern sunnudag er „þrjúbíó“ þar sem fólki er boðið að horfa á kvikmyndir sem tengjast heiðni.

Nýjasti galdurinn í Síðumúlanum eru vandaðar sýningar á „heiðinni list“ á veggjum salarins.
 

Tilvalinn salur fyrir veislur, fundi og fyrirlestra 

Í salnum er ágætur tækjabúnaður til fyrirlestrahalds og funda. Salurinn tekur vel 50 manns í sæti og til er borðbúnaður fyrir þann fjölda. Leiguverðið er sanngjarnt og félagsmenn fá afslátt af leigunni. Verið dugleg að kynna salinn okkar og nýtið hann sjálf, okkur veitir ekki af innkomunni. 
​
Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði

Vetrarstarfið að hefjast

Eftir Fréttir

Leshópurinn hefur vetrarstarfið miðvikudaginn þann 11. september klukkan 20. Nú verða tekin fyrir kvæði og fræði sem tengjast Loka. Farið verður um víðan völl og þar verður stuðst við undirstöðurit Jan De Vries, The problem of Loki, frá árinu 1933 og glænýja samantekt Yvonne S. Bonnetain, Loki : Beweger der Geschichten. Kaffi, kökur og kátína að venju.

3-bíó hópurinn hittist að nýju sunnudaginn þann 29. september. Hann hittist eftir það á tveggja vikna fresti fram á vorið. Viðfangsefnin verða margvísleg: Guðir utan úr geimnum, helgir loddarar, goðumlíkar hetjur og fáránlegar tilviljanir.

Opið hús á laugardögum heldur áfram eins og alltaf, en nú fer að draga að því að áhugaverðir fyrirlestrar verði í boði. Þeir verða auglýstir þegar nær dregar.

Siðfestufræðsla er svo síðasta laugardag hvers mánaðar kl. 12, á undan opnu húsi.

Haustblót verður haldið síðasta vetrardag, 26. október, og viku síðar, 2. nóvember, er boðað til allsherjarþings.

Siðfræðsla

Eftir Fréttir

Fræðsla fyrir siðfestuathafnir Ásatrúarfélagsins hefst að nýju laugardaginn 28. september.

Þegar hafa nokkur ungmenni bókað sig í fræðsluna, en hægt er að gera það með því að hafa samband við Jóhönnu Kjalnesingagoða ánetfanginu johanna@asatru.is  eða asatru@asatru.is

Fræðslan fer fram síðasta laugardag hvers mánaðar og hefst kl 12:00 í Síðumúla 15.  

Umsjón með fræðslunni hafa Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði, og Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, og fer hún að mestu leyti fram með stuttum kynningum og opnum umræðum.

Íris Ellenberger ráðin til starfa

Eftir Fréttir

Ãris Ellenberger

Mánudaginn 12. ágúst var ráðinn fyrsti starfsmaðurinn á skrifstofu Ásatrúarfélagsins. Starfsmaðurinn okkar heitir Íris Ellenberger en hún hefur störf í byrjun september.
Með tilkomu starfsmanns á skrifstofu eykst þjónusta Ásatrúarfélagsins við félagana gífurlega. Skrifstofan verður opin alla virka daga, auk þess sem allur daglegur rekstur auðveldast til muna.
Við bjóðum Írisi hjartanlega velkomna og hlökkum til að starfa með henni.

Að gefnu tilefni

Eftir Fréttir

Minnisvarðinn um Sveinbjörn Beinteinsson á byggingarlóð Ãsatrúarfélagsins í Öskjuhlíð

Að gefnu tilefni vill Ásatrúarfélagið taka fram að félaginu var úthlutuð lóð undir hof í Öskjuhlíð og er undirbúningur að framkvæmdum þegar hafinn.

Byggingarreiturinn var helgaður þegar minnisvarði um Sveinbjörn Beinteinsson var vígður sumardaginn fyrsta árið 2010.

Lögsögumaður

Heiðni kynnt á Vestfjörðum

Eftir Fréttir

Frá blóti á Vestfjörðum

Frá blóti á Vestfjörðum

Undanfarin ár hafa Laufey Eyþórsdóttir, staðgengill Vestfirðingagoða, og Anna Sigríður Ólafsdóttir (Annska), listakona á Ísafirði, verið með kynningar um heiðni í Arnardal fyrir hópa sem heimsækja svæðið sem og aðra sem óska eftir kynningum.  Við báðum Laufeyju að segja okkur frá starfseminni:

Fyrir nokkrum árum byrjaði Annska að hanna ferðina og fékk Eyvind Vestfirðingagoða til að halda blót ásamt því að kynna lykilþætti heiðninnar og kveðskap fyrir fólki. Ég sá um þýðingar á texta og kynningu yfir á ensku, ásamt því að bæta inn upplýsingum um goðafræðina. Fyrsta veturinn saumaði ég búninga sem við notum og ég kynni hefðina á bak við saumaskapinn og mynstursgerðina lauslega. Annska kynnir vestfirskan mat og segir ferðafólkinu sögur af álfum og tröllum í rútunni til og frá Arnardal. Danni eldsmiður frá Þingeyri smíðaði eiðbauginn og eldstæðið. Jóhanna Kjalnesingagoði útbjó gríðarlega flott horn handa okkur. Fleiri heiðingjar af svæðinu voru með fyrst um sinn en í dag sjáum við Annska alfarið um heiðnihlutann.

Þegar beiðni kom inn um kynningu að vetri til tók ég við hlutverki Eyvindar þar sem hann var erlendis. Eftir það fórum við Annska að halda blót fyrir heiðingja á svæðinu og ég hef séð um athafnirnar. Þar hefur Jónína Vestlendingagoði verið mér mikið innan handar varðandi áherslur í blótunum og við erum góðar vinkonur í dag.

Þetta sumar tók eitt skemmtiferðaskipafélag ferðina í sölu og þau koma þrisvar í sumar. Svo eru stundum hópar sem biðja um kynningu og við græjum það þá eftir þörfum.

Auðvitað gætum við þess að fara ekki út í trúboð, heldur veitum eingöngu fræðslu þegar um hana er beðið.

Eyvindur bað mig um að taka við af sér og síðasta haust gerðist ég staðgengill Vestfirðingagoða. Þjálfunarferli goða tekur allavega tvö ár og það er gott að hafa góðan tíma fyrir sér, því þetta er heilmikil skuldbinding. Í augnablikinu er þetta of stór biti fyrir mig að kyngja og ég hef þurft að draga mig aftur út úr formlegu framboði. Aðstæður eru þannig að ég get ekki sinnt goðahlutverkinu eins og mér finnst þurfa. Auðvitað sinni ég áfram fræðslu á svæðinu ef fólk biður um það. Bæði hef ég verið beðin um að koma með fræðslu í trúarbragðafræði í grunnskóla og erlendir háskólanemendur báðu mig um að koma til sín með blót og fræðslu um heiðni í tengslum við nám þeirra um íslenska menningu.

Við Annska höldum okkar blót áfram á svæðinu og allir eru velkomnir á þau. Við munum auglýsa þau á Facebook og svo er hópurinn á svæðinu nokkuð vel tengdur. Það er gaman að sjá góða mætingu á blótin hjá okkur, bæði fólk úr félaginu og aðra sem vilja einfaldlega njóta athafnarinnar og samverunnar.

Laufey Eyþórsdóttir, Ísafirði

Verða óskir þínar virtar? Eyðublað fyrir lífslokaskrá komið út

Eftir Fréttir

Ásatrúarfélagið hefur hannað eyðublað fyrir lífslokaskrá á PDF-sniði. Með því að fylla út eyðublaðið, undirrita það, afla staðfestingar tveggja vitundarvotta og koma því til varðveislu á öruggum stað hefur sá sem það gerir gert allt sem í mannlegu valdi stendur til þess að tryggja að óskir um útför og annað í tengslum við andlát verði virtar. Sjá nánar hér.