Skip to main content
All Posts By

skrifstofa

Námskeið í vattarsaumi á handverkskvöldi! (18.10.22)

Eftir Fréttir

Námskeið í vattarsaumi á handverkskvöldi í kvöld kl 20:00 í hofinu okkar! Gjaldið er 3.000 fyrir hvern sem tekur þátt. Það þarf að taka með sér vattarsaumsnál og léttlopa. Þeir sem eiga ekki nál geta fengið lánaða nál hjá okkur í kvöld. Að venju verður kaffi á könnunni og öll velkomin!

Allsherjarþing 2022 (29. október 2022)

Eftir Fréttir
Allsherjarþing 2022.
Allsherjarþing Ásatrúarfélagsins fyrir starfsárið 2021-2022 verður haldið í hofi Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð að Menntasveigi 15 laugardaginn 29. október nk. kl. 14:00.
 
Allir félagsmenn velkomnir og hvattir til að mæta.
 
Verkefni þingsins eru þessi:
1. Skýrsla lögréttu, borin upp til umræðu og staðfestingar.
2. Reikningar lagðir fram til umræðu og til staðfestingar.
3. Lagabreytingar og aðrar tillögur.
4. Kosið í lögréttu.
5. Kosning skoðunarmanna reikninga, nefnda og í aðrar trúnaðarstöður.
6. Önnur mál.
 
Til að komast að hofinu er best að leggja hjá Nauthóli eða á bílastæðinu við Háskóla Reykjavíkur. Ef illa gengur að finna hofið er hægt að hringja í síma 861-8633 til að fá nánari leiðsögn.

Veturnáttablót í Reykjavík 22. október

Eftir Fréttir

Veturnáttablót Ásatrúarfélagsins verður haldið 22. október sem er fyrsti vetrardagur.

Blótið hefst klukkan 20:00 við hofið okkar að Menntasveigi 15, og eru öll velkomin.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með að senda okkur skilaboð á asatru@asatru.is

Goðafundur 10. febrúar 2009

Eftir Fréttir

Goðafundur 10. febrúar 2009

Mættir: Jóhanna, Jónína, Hilmar og Árni.

Trúarbragðafræðsla í skólum

Í upphafi var rætt óformlega um trúarbragðafræðslu í skólum. Baldur er væntanlegur suður aðra helgi og rætt var um möguleikann á að hittast þá og ganga í það verkefni að undirbúa og skipuleggja útgáfu eins og lengi hefur verið í bígerð. Jóhanna og Jónína voru búnar að semja plagg um hvernig mætti haga verkum og einnig um umhugsunarefni fyrir goðana fyrir þann fund. Nú þarf að grafa það upp og senda aftur þar sem reikna má með að þetta sé fyrnt í tölvum. Skjaldið þarf að senda aftur út fyrir fundinn þegar af honum verður.

Kærleikur

Hilmar ætlar að vera fulltrúi Ásatrúarfélagsins á Vetrarhátíð í Reykjavík 14. Febrúar en þá verður svokölluð kærleiksganga um Tjörnina.

Kynning á siðfestufræðslunni

Rætt var um að einhvers konar kynningu á siðfestu þyrfti að koma í fjölmiðla á þessum árstíma þegar fermingarfræðslan stendur sem hæst hjá þjóðkirkjunni. Goðar fara fram á að félagið auglýsi kynningarfund á siðfestu – og siðfestufræðslu fyrir laugardaginn 28. febrúar, en þá verður Jóhanna með kynningu á siðfestu á opnu húsi.

Sumardagurinn fyrsti

Ketill Larsen hefur boðist til að skemmta krökkunum og jafnvel að vera með einhvers konar kennslu í töfrabrögðum á blótinu um daginn. Halldór Bragason verður að skemmta á Rúbín og stakk upp á að skemmtilegt gæti verið að halda blótið í Öskjuhlíðinni og tengja það veitingataðnum að einhverju leyti. Þetta blót verður að vanda fjölskylduvæn skemmtun um miðjan dag með grilli og leikföngum fyrir börnin.

Rætt um sumarstarfið

Goðum leist svo á að sennilega yrðu færri athafnir í sumar en verið hefur, amk sýnist svo nú miðað við bókanir. Aðeins var tæpt á blótum sem búið er að ákveða í sumar. Jónína stefnir að blóti á vorjafndægri, Jóhanna að Mógilsárblóti í endaðan maí, Árni hyggst fara norður og blóta þar og Baldur stefnir að sumarblóti sem enn hefur ekki fengið dagsetningu. Reynt verður að koma inn í Vorn sið tilkynningum um það sem þegar hefur verið ákveðið og eins er stefnt að því að koma tilkynningum sem fyrst á heimasíðuna.

Að lokum …

… nokkurt spjall um hofið góða sem allir bíða eftir í ofvæni. Dagdraumar um að reyna að koma amk upp einhvers konar blóthring í sumar til að eiga samastað.

Goðafundur 20. júní 2007.

Eftir Fréttir

Goðafundur 20. júní 2007

Útdráttur úr fundargerð

1. Þingvallablótið

Umræður og skipulagning blótsins á Þingvöllum þann 21. júní. Önnur mál: Blóthald landshlutagoða á næstunni: Fram kom að samtímis Þingvallablótinu á morgun 21. júní halda þeir sumarsólstöðublót, Eyvindur Vestfirðingagoði vestur á fjörðum og Baldur Freysgoði austur á landi. Haukur Reykjanesgoði hefur áætlað að halda blót í sumar en óvíst hveær. Jónína Vestlendingagoði heldur Vættablót um haustjafndægur þann 22. september.

2. Minningarskjöldur

Umræður um tillögu frá Jóhannesi Levý, um að reistur yrði minningarskjöldur í grafreit Ásatrúarfélagsins í Gufunesi, um ásatrúarmenn sem jarðsettir eru annarsstaðar. Ákveðið var að vísa málinu til Lögréttu. Umræður um goðorð og vinnuframlag goða.

Fundarritari: Jónína K. Berg

Goðafundur 3. mars 2007

Eftir Fréttir

Goðafundur 3. mars 2007

Útdráttur úr fundargerð

1. Verkaskipting goða vegna athafna og hjónavígslna

Fram kom að Tómas mun hafa lausan tíma í sumar og getur því tekið að sér að sjá um hjónavígslur.

2. Gjaldskrá vegna athafna sem framkvæmdar eru af goðum Ásatrúarfélagsins

Umræður um kostnað og vinnuframlag goða. Unnin var gjaldskrá sem liggja skal frammi á skrifstofu félagsins. Til viðmiðunar höfðum við gjaldskrá frá Dómsmálaráðuneytinu um aukaverk presta. Og gjaldskrá sýslumanna vegna hjónavígslna á þeirra vegum. Einnig rætt um hvort félagið kæmi til móts, með að taka þátt í kostnaði vegna siðfræðslu.

3. Kynningarmál

Umræður um siðfestu og að betur þurfi að kynna siðfræðsluna á heimasíðunni. Rætt um að goðar í landshlutum auglýsi skráningu til siðfræðslu hver á sínu landssvæði og hvort félagið komi á móts við auglýsingakostnað.

Fundarritari Jónína K. Berg

Goðafundur 2. febrúar 2007

Eftir Fréttir

Goðafundur 2. febrúar 2007

Fundur settur kl 18:10

1. Áætlun um næstu goðafundi

Ákveðið var að næsti fundur yrði haldinn þann 3. mars á undan lögréttufundi og að þar næsti goðafundur yrði haldinn í Hlésey hjá Kjalnesingagoða í byrjun apríl.

2. Áætlað hvenær ársins hver goði muni standa fyrir blótum

Baldur áætlar að halda blót sumardaginn fyrsta þann 19. apríl á Austurlandi.
Jóhanna heldur blót 19. maí á Mógilsá.
Eyvindur áætlar blót í júní eða júlí á Vestfjörðum og Jóhanna mun halda blót að Hlésey í Hvalfirði seinnipart sumars.
Jónína verður með blót á Vesturlandi um haustjafndægur þann 22. september.

3. Verkaskipting goða vegna athafna

Vegna mikillar aukningar í fjölda athafna, sérstaklega hjónavígslna yfir sumartímann munu þeir goðar sem nýlega hafa fengið vígsluréttindi taka að sér fleiri hjónavígslur næsta sumar, skipulag varðandi þetta verður gert á næstunni.

Einnig verður gerður listi sem liggja mun frammi í Síðumúla um þær athafnir sem hver goði er tilbúinn að taka að sér.

4. Fyrirspurn frá laganefnd varðandi fyrirkomulag við Þingvallablót og varðandi gjaldtöku vegna athafna

Jónína leggur til að aftur verði tekin upp sú venja að taka fyrir og afgreiða eina ályktun eða eitt mál sem samstaða er um, á blótum á Þingvöllum.

Munum kanna fyrirkomulag hjá öðrum trúfélögum og fá nánari upplýsingar frá Hagstofunni varðandi gjaldtöku fyrir athafnir. Leggjum áherslu á að félagið starfi á landsvísu og stuðlað sé að jafnræði, hvar á landinu sem halda þarf athöfn og leggjum til að félagið standi straum af hluta kostnaðar við athafnir og ferðir goða.

5. Kynningarmál vegna siðfestu

Umræður um að félagið þurfi að minna á siðfestuathafnir og þá fræðslu sem því tilheyrir. Goðar leggja til að stjórn auglýsi skráningu til siðfestu í fjölmiðlum á næstunni og að tilkynningin birtist einnig á vefsíðu félagsins (það mætti koma fram í auglýsingunni). Jóhanna leggur til að á Þingvallablótinu fari þau sem það velja í gegnum siðfestuna.

Önnur mál

Umræður um áhrif áfalla af ýmsum orsökum svo sem vegna slysa og dauðsfalla. Baldur lagði fram samantekt og lesefni varðandi þessi mál.

Fundarritari Jónína K. Berg