Fyrsta handverkskvöld vetrarins verður í kvöld kl 20:00 í hofinu okkar að Menntasveigi 15. Kaffi á könnunni!
Kæru meðlimir og aðrir forvitnir.
Þá er dagskráin okkar hafin og verða eftirfarandi viðburðir í gangi í haust/vetur;
Handverkskvöld; hugsuð fyrir þá sem hafa áhuga á handverki. Tilvalið að taka með sér það verkefni sem hver og ein/nn er með í vinnslu og deila reynslu með öðrum. Öll þriðjudagskvöld kl 20:00.
Leshópur; Í leshópnum ætlum við að ræða valin verk og kvæði. Boðið er upp á kaffi og meðlæti og öll eru velkomin. Í haust/vetur ætlum við að byrja á að grúska í Hávamálum. Öll miðvikudagskvöld kl 20:00.
Opið hús; Boðið er upp á kaffi og með því yfir léttu spjalli. Öðru hverju eru skemmtilegir og fróðlegir fyrirlestrar og þá verða þeir auglýstir sérstaklega hér á vefsíðunni og á facebooksíðu félagsins. Alla laugardaga frá kl 14-16.
Sunnudaginn 25. september klukkan 16:00 verður haldið jafndægrablót í Selsskógi í Skorradal. Fögnum árstíðunum og lyftum horni til heilla goðum og góðum vættum. Kakó á eftir og öll velkomin.
Kær kveðja, Vestlendingagoði.
Opinn lögréttufundur Ásatrúarfélagsins verður haldinn, laugardaginn 17. september, kl. 14:30, í hofi félagsins í Öskjuhlíð að Menntasveig 15. Áætluð fundarlok 15:30 til 16:00.
Félagsmenn Ásatrúarfélagsins velkomnir.
Mál á dagskrá:
1. Öryggisúttekt. Til kynningar.
2. Ásatrúarfélagið – Almenningsheillafélag. Til kynningar.
3. Afmælisár – Ásatrúarfélagið 50 ára um þessar mundir. Félagið var stofnað 20. apríl 1972 og fékk löggildingu ári eftir stofnun.
4. Hofbyggingin. Áframhald framkvæmda.
Magnús Jensson arkitekt segir frá sinni framtíðarsýn á áframhaldandi byggingu hofsins og áfangaskiptingu. Verklegi þátturinn.
5. Önnur mál.
Af óviðráðanlegum orsökum er opna lögréttufundinum sem halda átti þann 3. september, frestað. Dagsetning fundarins verður birt hér síðar.
Sumarblót verður haldið í fjörunni í Selárdal einmitt þar sem listamaðurinn með barnshjartað sótti efni í sínar ævintýrahallir. Blótið er helgað Iðunni og Frey, enda tími uppskerunnar framundan.
Allir velkomnir. Kaffi á eftir.
Hið árlega Njarðarblót í Suðurlandsgoðorði verður haldið í lystigarðinum við Fossflöt í Hveragerði sunnudaginn 31. júlí kl. 13:00. Safnast verður saman fyrir framan lystigarðinn, á horni Breiðamerkur og Skólamerkur. Haukur Bragason Lundarmannagoði mun helga blótið Nirði.
Allir eru velkomnir, félagsmenn sem aðrir.
Sumarblótinu á Grundarfirði verður frestað fram eftir sumri. Nánari dagsetning verður tilkynnt hér innan bráðar.
Þá er komið að skógarblótinu sem mun eiga sér stað við Þórshamarinn í Öskjuhlíð. Boðið verður upp á kakó og kaffi ásamt einhverju bakkelsi. Óskar Bjarni Skarphéðinsson mun kveða úr Völuspá. Allir velkomnir en athöfnin hefst kl 21:00.
Loksins er komið að þingblótinu okkar eftir 2 ára hlé. Þriðjudaginn 21. júní verður sólstöðum fagnað með blóti á Þingvöllum. Athöfnin hefst kl 18:30 í Almannagjá og að henni lokinni verður boðið upp á grillaðar pulsur ásamt drykkjum. Allir velkomnir.
