Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Um fyrirhugaða fjársöfnun Þjóðkirkjunnar

Eftir Fréttir

Á fundi lögréttu, fram­kvæmda­stjórnar Ásatrúar­félagsins, 8. janúar 2013 var eftirfarandi samþykkt í tilefni af umræðum um fyrirhugaða fjársöfnun Þjóðkirkjunnar til tækjakaupa fyrir Landspítalann:

Ásatrúarfélagið fagnar fyrirhugaðri landssöfnun Þjóðkirkjunnar og hvetur hana til góðra verka.

Þessi samþykkt er að sjálfsögðu óháð því að Ásatrúarfélagið hefur, ásamt fleiri trúfélögum, lengi barist gegn því misrétti að ríkisvaldið mismuni trúfélögum með ríflegum aukaframlögum til Þjóðkirkjunnar úr sameiginlegum sjóðum okkar allra.

Þannig skipa yfirvöld þeim fjórðungi landsmanna, sem kýs að standa utan Þjóðkirkjunnar, skör lægra en öðru fólki og sjálf ver kirkjan mismunun í sína þágu.

Jól, ásatrú og heimsendaspár

Eftir Fréttir

Hinn 22. desember ræddi Lísa Pálsdóttir við Hauk Bragason, Suðurlandsgoða, í þættinum Flakk á Rás 1. Meðal þess sem tekið var fyrir voru jól, ásatrú og heimsendaspár. 

Jól fyrr og nú

Eftir Fréttir

Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú.

Í Lesbók Morgunblaðsins 24. des. 1925 er fjallað um forna jólasiði:

Margar sagnir sanna, að forfeður vorir hafa haldið hátíð mikla um miðsvetrarskeið, og kallað jól. En upphaflega mun þó nafnið jól eigi hafa táknað hátíð, heldur hefur það verið mánaðarnafn eða missera. Gotar í Austur-Evrópu nefndu nóvember fyrri mánuð jóla og desember annan. Hjá Engil Söxum hjetu mánuðirnir desember og janúar jól. Og í fornnorrænu hjet einn mánuður ársins (frá því í nóvember og fram að jólum) Ýlir, og er það nafn dregið af jól.

Flestir telja að sólhvarfahátíð, jólin, sem vér nú höldum helg 25. desember, eru komin í stað jóla heiðingjanna. Fyrst í stað hjelt kirkjan afmælishátíð Krists hinn 6. janúar, en á 4. öld var þessu breytt, vegna þess, að kristnir menn hjeldu alltaf upp á hin heiðnu jól eða tóku þátt í fögnuðinum út af því, að sólin hækkaði aftur göngu. Og þessi breyting var rjettlætt með því, að sólhvörfin væri afmælishátíð hinnar einu sönnu sólar, Krists, „rjettlætisins sólar“. Jólunum má og eigna siði þá, sem bundnir eru við Eldbjargarmessu (7. jan.). Þá drukku menn Eldbjargarminni sem fagnaðaröl út af því að þá kemur sólin aftur með eld sinn.“

Í Lesbók MBL 1949 er fjallað um heiðin jól og kristin jól:

Samkvæmt gamla tímatalinu voru sólhvörf 25. desember. Prokópis segir; á 6tu öld, að íbúar Thule í norðrinu seu í myrkri, um vetur, 40 daga, þegar 35 þeirra eru liðnir, senda þeir menn upp á fjallatinda að vita hvort sjái til sólar. Ef þeir sjá til hennar, byrjar veislufögnuður hjá öllum. Nú var fæðingardagur Krists ókunnur, og var ekki haldinn hátíðlegur fyr en seint á 4ðu öld e.Kr. „Kristur er sólin, sem sigrar myrkrið“, endurhljómar í kristnum ritum. velja menn honum því fæðingardag, þegar sólin, lífgjafinn, færir oss hita og ljós. Armeníumenn, sem tóku kristni einna fyrstir af öllum þjóðum, halda enn jólin 6. janúar, þ.e. á þrettánda.

Páll Vídalín skrifaði um jól og heiðni: „Jól er eldra orð í norrænu máli en kristnin sjálf. Orðið þýðir veisla líkt og orðið blót. Kom það í stað veturnátta blóts heiðingja.“ Elsta vísbending um jólahald er í kvæði um Harald hárfagra sem talið er frá 9. öld. Þar er hann sagður vilja „drekka jól úti“ og „heyja Freys leik“. Í Heimskringlu segir að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri hafi um miðja 10. öld fært jólahald Norðmanna frá einhverri „hökunótt“, sem enginn veit hvenær var, til sama tíma og kristnir menn héldu fæðingarhátíð frelsarans. Líklegast er að tímasetning hinna fornu jóla hafi ekki verið á neinum vissum degi eftir okkar almanaki, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu.

Textinn, sem er lítillega styttur, er fengin að láni af vefsíðunni: http://www.ferlir.is/?id=6944

Egill Baldursson

Við viljum gefa

Eftir Fréttir

Æ fleiri Íslendingar eiga líf sitt því að þakka að hafa þegið líffæri að gjöf. Eftirspurnin eykst þökk sé framförum í læknavísindum og æ fleiri bíða gjafalíffæris. Dýrmætari gjöf er ekki hægt að gefa.

Skilyrði þess að mega nema líffæri úr látnum manni er að hann hafi lýst yfir vilja til þess í lifanda lífi eða að aðstandendur samþykki. Fram hefur komið að í 40% tilvika segja aðstandendur nei.

Þess vegna er full ástæða til að minnast þess að þótt fé deyi og frændur, þá deyr orðstír aldrei. Sá sem þarf að kveðja lífið, en gefur það um leið öðrum að skilnaði, öðlast góðan orðstír sem tengist þakklæti og virðingu – og lifir. Það er ástvinum huggun harmi gegn.

Líf liggur við
Ásatrúarfélagið styður átak SÍBS, „Ég vil gefa", þar sem hvatt er til samræðna um líffæragjafir. Innbyrðis hafa heiðnir menn ólíkar hugmyndir um það hvort látinna bíði annað líf umfram það sem þeir eiga í minningaheimi eftirlifenda en þó erum við almennt viss um að velferð okkar í eilífðinni sé ekki undir því komið að við tökum með okkur öll líffærin í gröfina.

Á næstu dögum sendir Ásatrúarfélagið öllum félagsmönnum sínum, um 2.100 talsins, óútfyllt líffæragjafaskírteini sem þeir verða hvattir til að fylla út og ganga með á sér. Um leið hvetjum við vini okkar í öðrum trúfélögum og utan þeirra til að taka jákvæða afstöðu til líffæragjafa. Líf liggur við.

Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði
Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði og staðgengill allsherjargoða.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 4. desember 2012

Fyrirlestrar á vormisseri

Eftir Fréttir

Eftir áramót fer af stað röð spennandi fyrirlestra þar sem fræðimenn og listamenn bregða nýju og óvæntu ljósi á varðveislu og viðgang hins forna arfs og gilda.
Þar má nefna þá félaga Friðrik Erlingsson og Gunnar Karlsson sem fjalla um teiknimyndina „Þór, hetjur Valhallar“ og varpa ljósi á þá vinnu sem fór fram að
tjaldabaki: Aðlögun goðsagna að nútímanum, hvernig sögur þróast og öðlast sjálfstætt líf og þá þraut að myndgera goð, gyðjur, hetjur og jötna á kíminn hátt án þess
að móðga meðlimi félagsins.

Skáldkonan og þjóðfræðingurinn, Vilborg Davíðsdóttir, fjallar um þrekvirkin Auði og Vígroða og þær frumrannsóknir sem liggja að baki. Enn fremur fjallar Sveinn Yngvi Egilsson um heiðið leynifélag Bessastaðaskólapilta, þversagnakennda afstöðu þeirra gagnvart Eddulist og ýmislegt annað sem hann tæpti á í snilldarritgerðinni „Óðinn sé með yður“ í undirstöðuritinu „Guðamjöður og arnarleir“.

Aðalheiður Guðmundsdóttir verður með erindið „Handverksmaðurinn og hetjan“ og Steindór Andersen bregður ljósi á kenningar og heiti Skáldskaparmála Snorra frá
öndverðu fram á okkar dag.

Fleiri eiga eftir bætast í hópinn og dagskráin verður kynnt á heimasíðu félagsins.

Undirritaður ríður á vaðið á nýju ári þann 5. janúar með erindi sem nefnist „Óðinsgervingar á hvíta tjaldinu“ og þar verða einnig kynntar þrjúbíó samkomur á
sunnudögum þar sem verður farið í gegnum frábærar, góðar, slæmar og sérdeilis vondar kvikmyndir sem tengjast heiðnum minnum.

Hilmar Örn Hilmarsson
Allsherjargoði

Ný lögrétta – konur í meirihluta

Eftir Fréttir

Allsherjarþing var haldið á Hótel Sögu í dag, 27. október. Á þinginu lauk kjörtímabili þriggja lögréttumanna, Huldu Sifjar Ólafsdóttur, Böðvars Þóris Gunnarssonar og Halldórs Bragasonar. Einnig lauk kjörtímabili varamannanna Sigurlaugar Lilju Jónasdóttur og Lenku Ková?ovu.

Í lögréttu voru eftirfarandi kosnar:
Hulda Sif Ólafsdóttir
Sigurlaug Lilja Jónasdóttir
Hrafnhildur Borgþórsdóttir

Auk þess hefst nú síðara ár kjörtímabils Halls Guðmundssonar og Bjarka Karlssonar.

Allsherjargoði og staðgengill hans eru einnig aðalmenn í lögréttu; Hilmar Örn Hilmarsson og Jóhanna G. Harðardóttir.

Varamenn eru:
Lenka KováÅ•ová – 1. varamaður
Böðvar Þórir Gunnarsson – 2. varamaður

Löglegt en siðlaust misrétti

Eftir Fréttir

Grein eftir Jóhönnu Harðardóttur, Kjalnesinga­goða. Birtist í Fréttablaðinu 16. október.

Dómur féll í máli Ásatrúarfélagsins gegn ríkinu í nóvember 2006 þar sem fjallað var um greiðslur sambærilegar þeim sem þjóðkirkjan hefur þegið af ríkinu.

Skemmst er frá því að segja að Ásatrúarfélagið tapaði því máli, en dómurinn komst þó að þeirri niðurstöðu að Jöfnunarsjóður sókna geri upp á milli trúfélaga þótt greiðslur úr sjóðnum séu ákvarðaðar með lögum.
Sum sé, löglegt en siðlaust.

Ásatrúarfélagið tók ákvörðun um að áfrýja málinu til Mannréttindadómstólsins til að freista þess að ná fram réttlæti, en nú hefur einnig það hálmstrá brugðist þar sem málinu var vísað frá dómi í byrjun október 2012.

Alltof lengi hefur Ásatrúarfélagið látið yfir sig ganga mismunun af hálfu hins opinbera og það þegjandi og hljóðalaust. Hér skal skýrt tekið fram að félagið fer aðeins fram á að jafnrétti ríki meðal landsmanna hverrar trúar sem þeir eru, eins og segir til um í stjórnarská og mannréttindalögum, en tekur ekki afstöðu gegn öðrum trúfélögum eða greiðslum til þeirra að neinu leyti.

Staðreyndir eru ljósar varðandi mismunun á stuðningi við landsmenn eftir því hvar í trúfélög þeir skipa sér. Því verður aldrei á móti mælt að þjóðkirkjan hefur stuðning ríkisvaldsins sem tryggir henni gífurlegar fjárhæðir í gegnum opinbera sjóði og ýmsa styrki. Allar eru þessar greiðslur komnar úr vösum skattborgaranna, þ.m.t. ásatrúarmanna og annarra þegna sem standa utan þjóðkirkjunnar.

Og nú kann einhver að draga fram þessi margnotuðu rök; „en þjóðkirkjan ber ábyrgð og skyldur gangvart öllum landsmönnum.“ Svo kann vel að vera, en það gera aðrir líka.

Þrátt fyrir að það kunni að koma illa við einhvern lesanda er það engu að síður staðreynd að talsverður hluti landmanna kærir sig einfaldlega ekki um þjónustu þjóðkirkjunnar rétt eins og hluti landsmanna kærir sig ekki um þjónustu Ásatrúarfélagsins. Á tuttugustu og fyrstu öldinni er kominn tími til að viðurkenna þessa staðreynd og sætta sig við hana.

Fjárveitingar ríkisins skipa landsmönnum í flokka
Ásatrúarfélagið er það trúfélag sem hefur stækkað langmest undanfarin 10 ár. Það starfar á landsvísu og á miklum skyldum að gegna um dreifaðar byggðir landsins. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér gífurlegan kostnað sem erfitt er að standa undir þegar einu tekjurnar eru sóknargjöld.

Ásatrúarfélagið hefur axlað sína ábyrgð og aldrei skorast undan þjónustu við landsmenn, án tillits til þess hvort viðkomandi er skráður í Ásatrúarfélagið, þjóðkirkjuna eða er utan safnaða. Þetta hefur verið gert með gleði þrátt fyrir að goðar félagsins séu launalausir, undir talsverðu álagi og þiggi aðeins lágmarksgreiðslur fyrir athafnirnar sem þeir framkvæma.

Ásatrúarfélagið ber ábyrgð á fornum menningarverðmætum ekki síður en þjóðkirkjan. Því hlutverki hefur félagið sinnt með sóma þrátt fyrir að starfið hafi mestan part verið unnið í sjálfboðavinnu félagsmanna og við erfiðar aðstæður.

Það er vissulega erfitt að taka hverju kjaftshögginu á fætur öðru fyrir dómstólum. En þegar barist er fyrir réttlætinu gefst maður ekki upp. Við ásatrúarfólk erum íslenskir ríkisborgarar ekki síður en þeir sem skráðir eru í þjóðkirkjuna, það eru einnig þeir sem standa utan trúfélaga eða eru í öðrum minni söfnuðum.

Gleymum því aldrei að fjárveitingar eru stefnumótunartæki. Með því að styrkja einn söfnuð en svelta aðra er ríkisvaldið að taka skýra afstöðu með einni lífskoðun og gegn annarri og við þær aðstæður ríkir ekki raunverulegt trúfrelsi í landinu. Það er ekki mikið flóknara en svo.