Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Ömmurnar

Eftir Fréttir

Sýning Önnu Leifar Elídóttur, Ömmurnar verður opnuð í salnum í Síðumúla 15, laugardaginn 6. maí á opna húsinu, kl. 14:30 til 16:30. Léttar veitingar verða í boði.
Ömmurnar eru myndverk sem Anna Leif málaði af nokkrum formæðrum sínum sem fæddar voru á tímabilinu 1874-1923. Með myndunum fylgir saga hverrar þessarra kvenna, en þær áttu mjög ólíka daga um ævina.
Anna Leif útskrifaðist úr fornámi til myndlistar frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og diplóma til kennsluréttinda á grunn- og framhaldsskólastigi þaðan árið 2007. Anna Leif lauk námi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst og starfar nú á Þjóðminjasafninu.

Ömmurnar er verkefni sem Anna Leif hefur verið lengi með í huga enda ættfræði henni, sem og flestum Íslendingum hugleikin. Anna Leif er útskrifuð frá Listaháskóla Íslands árið 2005 með BA í myndlist. Hún hefur sýnt á fjölda samsýninga en síðasta einkasýning hennar var á Vökudögum árið 2013 í Klukkuturninum að Görðum, Akranesi.

Stærð veraldar

Eftir Fréttir

Pétur Halldórsson flytur fyrirlestur sinn, Stærð veraldar, á opna húsinu laugardaginn 22. apríl, kl. 14:30 í Síðumúla 15.
Hin forna trú byggðist á hringrás lífs og dauða, tímatali, tölvísi, endurtekningu, hugmyndafræði miðju, jarðartrú og landmælingu. Helgistaðir voru tengdir landinu og náttúran lék megin hlutverk í helgisiðum. Allir eru velkomnir.

Sigurblót á Höfn í Hornafirði

Eftir Fréttir

Sigurblót Ásatrúarmanna verður haldið við Sílavík á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl. Sigurður Mar Svínfellingagoði helgar blótið kl. 17:00. Sumardagurinn fyrsti er hinn forni þjóðhátíðardagur Íslendinga og um aldir hefur tíðkast að gefa börnum sumargjafir. Því fá öll börn sem mæta litla sumargjöf. Á eftir verða grilluð Iðunnarepli og goðapylsurnar verða á sínum stað. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Vorjafndægrablót á Vesturlandi

Eftir Fréttir

Vorjafndægrablót á Vesturlandi verður haldið sunnudaginn 19. mars kl 16:00 í Einkunnum sem er fólkvangur og útivistarsvæði skammt ofan Borgarness.
Blótið verður helgað vönum og vættum vorsins og goðmögnum gróandans. Lyftum horni og fögnum lengri sólargangi og komandi vori! Allir velkomnir.
Til Einkunna liggur 3,5 km vegur af þjóðvegi nr 1 við hesthúsahverfið aðeins fyrir ofan Borgarnes.
Upplýsingar hjá Jónínu K. Berg Þórsnessgoða í 865-2581

Þórey Mjallhvít kynnir Ormhildarsögu

Eftir Fréttir

Jöklar heimsins hafa bráðnað og undan þeim skriðu allir óvættirnir úr þjóðsögunum. Eftirlifendur kúldrast á eyjum í sífelldum ótta við að verða étin. Breiðholtseyja er höfuðborg Fróneyja, þar má finna einu stofnanirnar frá gamla þjóðveldinu. KGRR, Kukl og galdra rannsóknarsetur ríkissins, var stofnað til að bregðast við þessari ævafornu, en þó nýju, vá þegar að flæddi yfir bakka Íslands. Ævintýrið hefst þegar Ormhildur, starfsmaður KGRR, finnur galdraseið sem að getur fryst jöklana á ný og frelsað heiminn úr klóm næturskrímsla. Eini hængurinn er að seiðurinn þarf að vera framkallaður á tindi Heklu, langt í burtu, yfir auðn og haf.

Ár og kýr – myndlistasýning

Eftir Fréttir

Opnun myndlistarsýningarinnar Ár og kýr
fimmtudaginn 2. febrúar
 
Myndlistarmaðurinn og kúabóndinn Jón Eiríksson á Búrfelli málaði eina vatnslitamynd af kúm hvern dag árið 2003.   Verkin hafa aldrei verið sýnd áður, en þau fylgja árstíðum í náttúru Íslands og vitna um húmor og sterka ást á landinu.
Hluti myndanna prýðir vegg í sal Ásatrúarfélagsins í Síðumúla 15 en hluti þeirra er til sýnis í möppu í salnum.
Einnig verður bókin Ár og kýr með öllum 365 kúamyndum Jóns til sölu á skrifstofu félagsins.
 
Sýningin verður formlega opnuð fimmtudaginn 2. febrúar kl. 17:00 og mun væntanlega standa fram á vormánuði.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir