Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Takk fyrir Alfreð

Eftir Fréttir

Ásatrúarfélagið vill þakka Alfreð í Kísildal, fyrir almennilegheit og óeigingjarnt starf í þágu félagsins. Ef eitthvað bjátar á í tölvumálum á skrifstofunni þarf ekki annað en að kíkja yfir og inn um næstu hurð, nefna nafnið hans og hann er strax mættur til okkar að bjarga málunum. Það er ómetanlegt. Takk kærlega fyrir það Alfreð!

Alda Vala og Sigurður Mar fá vígsluréttindi

Eftir Fréttir

Í sumar fór fram tvöföld goðavígsla á vegum félagsins í einstaklega góðu veðri á Þingvöllum. Það voru þau Alda Vala Ásdísardóttir og Sigurður Mar Halldórsson sem hafa verið undanfarin tvö ár í þjálfun sem hlutu vígslu. Alda Vala býr í Mosfellssveit og fer nú með Hvammverjagoðorð. Sigurður Mar býr á Höfn í Hornafirði og fer með Svínfellingagoðorð.

Útgáfuteiti bókarinnar Sögur í norrænni goðafræði

Eftir Fréttir

Sögur úr norrænni goðafræði er glæsileg og ríkulega myndskreytt barna- og unglingabók sem nú er komin út á vegum bókaútgáfunnar Rósakots í samstarfi við Peter Streich.

Í bókinni má finna bráðskemmtilegar endursagnir á nokkrum af helstu goðsögum norrænna manna. Hér kynnumst við þrumuguðinum Þór, bragðarefnum Loka, jötnum, dvergum, skrímslum og hrímþursum auk sögunnar af bardaga Sigurðar við drekann Fáfni svo að fátt eitt sé nefnt.

Bókin er skreytt litríkum myndum sem kveikja í ímyndunaraflinu en textinn er í senn vandaður og auðlesinn í þýðingu verðlaunaskáldsins Bjarka Karlssonar.

Útgáfuteiti verður haldið í Síðumúla 15, laugardaginn 8. ágúst kl. 13, í húsakynnum Ásatrúarfélagsins.

Upplestur, veitingar og samvera. Allir velkomnir.

Þingblót fimmtudaginn 25. júní

Eftir Fréttir

Allsherjargoði helgar blótið kl. 18:15 og í framhaldi af því fer fram tvöföld goðavígsla. Það eru þau Alda Vala Ásdísardóttir og Sigurður Mar Halldórsson sem hafa undanfarin tvö ár verið í þjálfun, sem taka goðavígslu. Þegar athöfninni lýkur göngum við saman niður á vellina, grillum og gleðjumst saman.
Félagið mun reisa tjaldborg í skjóli furanna á völlunum eins og áður og félagið sér
um að koma grillaðstöðu í gagnið, sem allir gestir geta nýtt sér að vild. Mælt er með
að fólk taki með sér mat sem þarf ekki langan eldunartíma því margir þurfa að nota
grillin. Börn fá pylsur í boði félagsins og sungið verður saman og spjallað. Síðast en
ekki síst mun svo hin sívinsæla hljómsveit Hrafnagaldur skemmta fram eftir kvöldi.

Hofbygging Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð

Eftir Fréttir

Á heimasíðu Magnúsar Jenssonar arkitekts má sjá nokkrar bygginganefndarteikningar af hofinu. Ásatrúarhofið verður byggt í tveimur áföngum, fyrst helgidómur, sem notaður verður sem fjölnotarými og lágmarks stoðrými. Félagsheimili verður byggt í öðrum áfanga.
Hér er hægt að fara inná síðu Magnúsar og skoða teikningarnar.

Mógilsárblótið laugardaginn 30. maí

Eftir Fréttir

Við minnum á hið árlega Mógilsárblót (gróður- og grillblót) sem hefst kl 14:00 í skógræktinni í Kollafirði. Strætó 57 stoppar við Esjurætur. 
Alltaf skjól í skóginum og húsið opið en betra að klæða sig eftir veðri svo börn sem fullorðnir notið útiverunnar og skógarilmsins.

Baðstofustemming, menning, handverk og sköpun.

Eftir Fréttir

Baðstofustemming, menning, handverk og sköpun.
Handverkskvöld verður haldið hér í Síðumúlanum á þriðjudagskvöldið, 2. júní milli kl 20 og 22. Þar getur  fólk unað sér í góðum félagsskap með lágværa tónlist í bakgrunni, sinnt sinni iðju hvort sem það er leðurvinna, tálgun, útskurður, saumur eða hvaðeina. Heitt verður á könnunni og meðlæti í boði.

Fjölfræðingurinn Sigurboði Grétarsson leiðbeinir fólki eftir þörfum. Allir velkomnir!

Barnagaman Ásatrúarfélagsins!

Eftir Fréttir

Barnagaman Ásatrúarfélagsins er að hefja göngu sína á ný í Síðumúla 15.
Opnunarhátíð verður sunnudaginn 24. maí, hvítasunnudag og hefst kl. 12:30.
Foreldrar eru hjartanlega velkomnir með börnin sín, en þema fyrsta dagsins verður LEIR. Pylsupottur verður  á glóðum ef einhver er svangur og auk þess kaffi og kex handa þeim fullorðnu.
Verið öll velkomin á þennan fyrsta barnasunnudag Ásatrúarfélagsins, en umsjónarmenn barnagamans eru Svandís Leósdóttir og Fjóla Elvan.

Fjöldi fólks mætti á sigurblót Ásatrúarfélagsins

Eftir Fréttir

Sigurblót Ásatrúarfélagsins var haldið á sumardaginn fyrsta en að þessu sinni var það haldið á Klambratúni í Reykjavík þar sem framkvæmdir eru hafnar á lóð félagsins í Öskjuhlíð.
Að venju var byrjað á helgistund en síðan gengið til grillveislu og trúður og blöðrublásari skemmtu börnunum við feikigóðar undirtektir. Veðrið var gott, sól og blíða en svolítið kalt.
Mikið var því um dýrðir á Klambratúni þennan dag, sumrinu fagnað og er óhætt að segja að aldrei nokkurn tíma hafi aðsókn að blóti verið eins mikil og þennan fyrsta sumardag í ár 2015 og skiptu gestir okkar hundruðum þegar best lét!

Sigurblót á sumardaginn fyrsta!

Eftir Fréttir

Sumardagurinn fyrsti er á næsta leiti og þá mun Ásatrúarfélagið halda Sigurblót á Klambratúni. Fimmtudaginn 23. apríl munum við fagna sumri í Skálinni á Klambratúni en hún er austan við listasafnið þegar gengið er inn frá bílastæðum við Flókagötu. Sigurblótið verður helgað kl. 14:00 en síðan verður grillað og blöðrublásari skemmtir börnunum. Allir hjartanlega velkomnir!