Flokkur

Fréttir

Að gefnu tilefni

Eftir Fréttir

Minnisvarðinn um Sveinbjörn Beinteinsson á byggingarlóð Ãsatrúarfélagsins í Öskjuhlíð

Að gefnu tilefni vill Ásatrúarfélagið taka fram að félaginu var úthlutuð lóð undir hof í Öskjuhlíð og er undirbúningur að framkvæmdum þegar hafinn.

Byggingarreiturinn var helgaður þegar minnisvarði um Sveinbjörn Beinteinsson var vígður sumardaginn fyrsta árið 2010.

Lögsögumaður

Heiðni kynnt á Vestfjörðum

Eftir Fréttir

Frá blóti á Vestfjörðum

Frá blóti á Vestfjörðum

Undanfarin ár hafa Laufey Eyþórsdóttir, staðgengill Vestfirðingagoða, og Anna Sigríður Ólafsdóttir (Annska), listakona á Ísafirði, verið með kynningar um heiðni í Arnardal fyrir hópa sem heimsækja svæðið sem og aðra sem óska eftir kynningum.  Við báðum Laufeyju að segja okkur frá starfseminni:

Fyrir nokkrum árum byrjaði Annska að hanna ferðina og fékk Eyvind Vestfirðingagoða til að halda blót ásamt því að kynna lykilþætti heiðninnar og kveðskap fyrir fólki. Ég sá um þýðingar á texta og kynningu yfir á ensku, ásamt því að bæta inn upplýsingum um goðafræðina. Fyrsta veturinn saumaði ég búninga sem við notum og ég kynni hefðina á bak við saumaskapinn og mynstursgerðina lauslega. Annska kynnir vestfirskan mat og segir ferðafólkinu sögur af álfum og tröllum í rútunni til og frá Arnardal. Danni eldsmiður frá Þingeyri smíðaði eiðbauginn og eldstæðið. Jóhanna Kjalnesingagoði útbjó gríðarlega flott horn handa okkur. Fleiri heiðingjar af svæðinu voru með fyrst um sinn en í dag sjáum við Annska alfarið um heiðnihlutann.

Þegar beiðni kom inn um kynningu að vetri til tók ég við hlutverki Eyvindar þar sem hann var erlendis. Eftir það fórum við Annska að halda blót fyrir heiðingja á svæðinu og ég hef séð um athafnirnar. Þar hefur Jónína Vestlendingagoði verið mér mikið innan handar varðandi áherslur í blótunum og við erum góðar vinkonur í dag.

Þetta sumar tók eitt skemmtiferðaskipafélag ferðina í sölu og þau koma þrisvar í sumar. Svo eru stundum hópar sem biðja um kynningu og við græjum það þá eftir þörfum.

Auðvitað gætum við þess að fara ekki út í trúboð, heldur veitum eingöngu fræðslu þegar um hana er beðið.

Eyvindur bað mig um að taka við af sér og síðasta haust gerðist ég staðgengill Vestfirðingagoða. Þjálfunarferli goða tekur allavega tvö ár og það er gott að hafa góðan tíma fyrir sér, því þetta er heilmikil skuldbinding. Í augnablikinu er þetta of stór biti fyrir mig að kyngja og ég hef þurft að draga mig aftur út úr formlegu framboði. Aðstæður eru þannig að ég get ekki sinnt goðahlutverkinu eins og mér finnst þurfa. Auðvitað sinni ég áfram fræðslu á svæðinu ef fólk biður um það. Bæði hef ég verið beðin um að koma með fræðslu í trúarbragðafræði í grunnskóla og erlendir háskólanemendur báðu mig um að koma til sín með blót og fræðslu um heiðni í tengslum við nám þeirra um íslenska menningu.

Við Annska höldum okkar blót áfram á svæðinu og allir eru velkomnir á þau. Við munum auglýsa þau á Facebook og svo er hópurinn á svæðinu nokkuð vel tengdur. Það er gaman að sjá góða mætingu á blótin hjá okkur, bæði fólk úr félaginu og aðra sem vilja einfaldlega njóta athafnarinnar og samverunnar.

Laufey Eyþórsdóttir, Ísafirði

Verða óskir þínar virtar? Eyðublað fyrir lífslokaskrá komið út

Eftir Fréttir

Ásatrúarfélagið hefur hannað eyðublað fyrir lífslokaskrá á PDF-sniði. Með því að fylla út eyðublaðið, undirrita það, afla staðfestingar tveggja vitundarvotta og koma því til varðveislu á öruggum stað hefur sá sem það gerir gert allt sem í mannlegu valdi stendur til þess að tryggja að óskir um útför og annað í tengslum við andlát verði virtar. Sjá nánar hér.

Heiðinn siður á Íslandi og Norræn goðafræði verða ókeypis rafbækur

Eftir Fréttir

Verið er að prófarkalesa ljóslestur bókanna

Bækur Ólafs Briem, Heiðinn siður á Íslandi og Norræn goðafræði, verða senn fáanlegar án endurgjalds á Rafbókavefnum. Þetta eru gleðifréttir fyrir okkur heiðingja og aðra áhugamenn um heiðinn sið.

Maðurinn á bak við Rafbókavefinn er Óli Gneisti Sóleyjarson.  Hann hefur gengist fyrir því að gefa út margvísleg ritverk, innlend sem erlend, sem rafbækur og dreifa þeim án endurgjalds.  Má þar m.a. nefna Íslendingasögur og önnur íslensk fornrit sem seljendur voru farnir að innheimta fullt verð fyrir í rafbókaverslunum sínum þó að tilkosnaður við útgáfuna væri nærri því enginn.

Höfundarréttur fellur niður þegar sjötíu ár eru liðin frá andláti höfundar þannig að ljóst er að biðin getur verið löng eftir því að margar ágætustu ritsmíðar 20. aldar verði almenningseign. Til að auka úrval frírra bóka hefur Óli Gneisti leitað eftir heimild rétthafa til þess að gefa út bækur sem eru enn varðar höfundarrétti.  

Hann hefur nú fengið leyfi fyrir bókum Ólafs Briem en það er dætur Jóhanns Briem, listmálara, bróður Ólafs, þær Katrín, Ólöf og Brynhildur sem veita leyfi fyrir verkinu. 

 

Óli Gneisti Sóleyjarson

Þó að efni bókanna sé tengt þá eru þær um margt ólíkar. Sú fyrrnefnda er fræðilegri í umfjöllun sinni en sú síðarnefnda er inngangsrit sem hefur verið mikið notað í kennslu í framhaldsskólum landsins frá því hún kom fyrst út árið 1940 (síðasta útgáfa var 1990). Þær hafa ekki verið endurútgefnar frá því að Ólafur lést og því má búast við að margir hlakki til að komast í þær.

Bækurnar eru ljóslesnar og umbreytt í tölvutexta með þar til gerðum hugbúnaði.  Þar sem vélrænn lestur er ekki óskeikull þarf að lesa allt efni yfir og þar stendur verkið einmitt nú en það yfirlestri loknum er fljótlegt að ganga frá þeim til dreifingar.  

Óli Gneisti óskar eftir aðstoð þeirra sem vilja leggja verkefninu lið og bendir áhugasömum um að skrá sig á prófarkalestursvef Rafbókavefsins.

Sömuleiðis skorar hann á þá sem eiga réttinn að bókum, hvort heldur er sínum eigin eða ættingja sinna, og vilja koma þeim í frjálsa dreifingu, til að hafa samband.

Léttum áhyggjum af ættingjum og tryggjum að farið sé að vilja okkar

Eftir Fréttir

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði

Margir heiðnir menn mega ekki til þess hugsa að útför þeirra fari fram í kirkju eða sé framkvæmd af presti. Þrátt fyrir þetta hafa fjölmörg dæmi sannað að ættingjar látinna heiðingja hafa látið alla umsjá útfarar þeirra í hendur kirkjunni.

Í nánast öllum tilvikum hafa goðum Ásatrúarfélagsins verið kunnugar óskir hins látna um að athöfnin færi fram að heiðnum sið en ættingjarnir annað hvort ekki vitað af því eða ákveðið þegar á hólminn er komið að hafa „hefðbundna“ útför þvert á vilja hins látna.

Ég vil ekki áfellast viðkomandi einstaklinga, þeir standa frammi fyrir erfiðri ákvörðun þegar lítill tími er til umhugsunar og ímyndaður eða raunverulegur þrýstingur á viðkomandi að „gera rétt“. Meðan engin staðfesting á óskum hins látna er til staðar er framkvæmdin alfarið í höndum eftirlifanda sem velur eflaust það sem hann telur best og stundum eftir harða baráttu við sjálfa sig og jafnvel aðra.

Það er heldur ekki auðvelt að vera ættingi í þessari stöðu og standa frammi fyrir hefðum samfélagsins. Það myndi létta ættingjum mikið að hafa í höndum undirritað plagg þar sem skýrt kemur fram hverjar óskirnar voru og geta fengið aðstoð við að uppfylla þær.

Nú hefur slíkt plagg litið dagsins ljós; svokölluð Lífslokaskrá sem einfalt er að útfylla, en þar koma fram óskir um hvernig eigi að bregðast við þegar sá sem hana undirritar yfirgefur Miðgarð. Sigurður Helgi Guðjónsson, lögmaður, var mér innan handar við að fullgera plaggið á lögformlegan hátt . Lífslokaskráin er nú í uppsetningu Grétu Hauksdóttur og verður tilbúin mjög fljótlega.

Sá sem undirritar skrána getur látið votta að hann vilji hafa heiðna athöfn við lífslok og hægt er að taka fram hvar athöfnin skuli fara fram, hvort hún verði í kyrrþey og hvernig eigi að haga ýmsu varðandi hana.

Skráin verður auglýst á vefsíðunni og Facebook-síðunni um leið og hún er tilbúin. Kíkið endilega, fyllið út og bendið öllum á hana. Það er of seint að gera eitthvað í málinu þegar prestur er búinn að krossa yfir okkur.

Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði

Ásatrúarfélagið stækkaði um 10% á árinu 2012

Eftir Fréttir

Hagstofa Íslands gaf í dag út árlega skýrslu sína um mannfjölda eftir trúfélögum miðað við 1. janúar ár hvert.

Tölurnar staðfesta áframhaldandi vöxt Ásatrúarfélagsins en félögum fjölgaði á liðnu ári úr 1951 í 2148, eða um 197 manns. Þetta er heldur minni fjölgun en tvö síðustu ár en þó sú þriðja mesta í sögu félagsins, eins og sjá má á síðunni félagafjöldi. Þá ber svo við um þessar mundir að félagið er orðið sjötta stærsta trúfélag landsins af þeim 39 sem skráð eru.

Með lagabreytingu, sem samþykkt var í janúar 2013, öðluðust lífsskoðunarfélög rétt til skráningar til jafns við trúfélög. Þegar hefur eitt slíkt boðað umsókn. Með breytingunni fá lífsskoðunarfélög sömu réttindi og skyldur og skráð trúfélög og munu því bætast í hóp trúfélaganna framvegis þegar Hagstofan birtir upplýsingar um mannfjölda eftir trúfélögum.

Félagslegt og lagalegt ójafnræði á Íslandi

Eftir Fréttir

Auglýsing um ójafnræði í meðferð ríkisins gagnvart trúfélögum og lífsskoðunarfélögum birt í Fréttablaðinu 17. janúar 2013 og lögð í pósthólf allra þingmanna. Auglýsendur eru Ásatrúarfélagið, Búddistasamtökin SGI á Íslandi, Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar
og Siðmennt, félag siðrænna húmanista.

Smellið á myndina til að skjá PDF-skjal í fullri stærð.

Smellið á myndina til að sjá PDF-skjal í fullri stærð

Um fyrirhugaða fjársöfnun Þjóðkirkjunnar

Eftir Fréttir

Á fundi lögréttu, fram­kvæmda­stjórnar Ásatrúar­félagsins, 8. janúar 2013 var eftirfarandi samþykkt í tilefni af umræðum um fyrirhugaða fjársöfnun Þjóðkirkjunnar til tækjakaupa fyrir Landspítalann:

Ásatrúarfélagið fagnar fyrirhugaðri landssöfnun Þjóðkirkjunnar og hvetur hana til góðra verka.

Þessi samþykkt er að sjálfsögðu óháð því að Ásatrúarfélagið hefur, ásamt fleiri trúfélögum, lengi barist gegn því misrétti að ríkisvaldið mismuni trúfélögum með ríflegum aukaframlögum til Þjóðkirkjunnar úr sameiginlegum sjóðum okkar allra.

Þannig skipa yfirvöld þeim fjórðungi landsmanna, sem kýs að standa utan Þjóðkirkjunnar, skör lægra en öðru fólki og sjálf ver kirkjan mismunun í sína þágu.

Jól, ásatrú og heimsendaspár

Eftir Fréttir

Hinn 22. desember ræddi Lísa Pálsdóttir við Hauk Bragason, Suðurlandsgoða, í þættinum Flakk á Rás 1. Meðal þess sem tekið var fyrir voru jól, ásatrú og heimsendaspár.