Grein eftir Jóhönnu G. Harðardóttur, Kjalnesingagoða, sem birtist í Morgunblaðinu 14. september 2012:
„Hefðbundin“ útför
Það syrtir jafnan að þegar ástvinur kveður. Ofan á sorgina og söknuðinn sem leggst á sálina bætast oft áhyggjur af framtíðinni, m.a. fjárhagslegar.
Í samfélaginu hafa skapast hefðir um hvernig skuli standa að útför og þeim fylgir gjarna gífurlega hár kostnaður sem reynist mörgum ofviða og veldur kvíða og erfiðleikum.
Ég hef orðið vitni að innri átökum eftirlifenda milli þess að „gera vel“ við minningu hins látna og þess að sitja uppi með erfiðar skuldir til margra ára. Ég hef líka líka orðið vitni að því þegar aðstandendur þurfa að velja milli þess sem þeir álíta að hafi verið ósk hins látna og þess sem aðrir vinir og ættingjar búast við eða ætlast til varðandi útförina.
Það er nefnilega ekki svo einfalt að brjóta á bak aftur hefðir þegar andlát ber að höndum. Sorg og söknuður annars vegar og væntingar samfélagsins hins vegar gera það erfitt að beita skynseminni eða fara óhefðbundnar leiðir þegar um hinstu kveðju er að ræða.
..og tilheyrandi
Flestir leita til útfararstofu þegar ástvinur deyr, enda auðveldar það erfiða ferð um ókunna stigu. Útfararstofur og -þjónustur eru margar og ekki um nákvæmlega sömu þjónustu né kostnað að ræða alls staðar. Þess má þó geta að viss lög gilda um hinn tæknilega þátt útfara, sbr. greftrun og bálför og um það stendur ekkert val.
Hin hefðbundna útför miðast alltaf við að hinn látni sé jarðsettur eða brenndur í þartilgerðri líkkistu sem kostar að lágmarki eitthvað á annað hundrað þúsund og allt á þriðja hundrað ef íburður er mikill. Í kistuna er einnig í boði ýmis umbúnaður s.s, vandaðar fóðringar, sæng, koddi, klútur og líkklæði.Ef lík er brennt þarf einnig að kaupa ker undir öskuna.
Til að gera umhverfi útfararinnar enn glæsilegra eru einnig í boði blómaskreytingar á kistuna sjálfa og á altari í kirkju eða annars staðar þar sem útför fer fram. Fallegur söngur þykir alltaf prýða og við allflestar athafnir er aðkeypt tónlistaratriði, t.d. orgelleikur eða annar hljóðfæraleikur, kórsöngur eða einsöngvarar. Í boði er einnig að láta gera vandaða sálmaskrá sem dreift er meðal gesta.
Hefðin gerir einnig ráð fyrir að tilkynnt sé um andlát og útför með tilheyrandi auglýsingum í útvarpi og blöðum og að í framhaldi sé erfidrykkja þar sem öllum þeim sem áhuga hafa er boðið til kaffihlaðborðs sem helst þarf að svigna undan kræsingum.
Ekki er óalgengt að leigður sé salur undir slíkar veislur og við það bætist kostnaður við veitingarnar sjálfar, laun starfsmanns og oft einhver kostnaður við skreytingar. Ef hinn látni hefur verið vinmargur, ættstór eða opinber persóna hleypur kostnaður af slíkri erfidrykkju á hundruðum þúsunda króna.
Að lokum þarf að merkja leiðið og bætist þar við kostnaður við legstein eða annars konar minnismerki.
Það gefur auga leið að hefðbundin útför er ekki aðeins óyfirstíganlegur kostnaður fyrir marga, heldur getur einnig strítt gegn vilja og sannfæringu hins látna og eftirlifenda hans.
Gerviþarfir og efnishyggja
Því miður get ég ekki litið á þessa hefð öðruvísi en sem óskapnað efnishyggjunnar. Hér er einfaldlega búið að gera „eins dauða að annars brauði“ og smyrja þá sneið ríkulega. Það er löngu kominn tími til að hugsa sinn gang og spyrja sig hvort þjónkun við gegndarlaust prjál og sölumennsku sé það sem við viljum láta einkenna okkar hinstu kveðju.
Og margar spurningar vakna:
- Hvers vegna þarf líkkista að kosta 100-250 krónur?
- Hvers vegna brennum við rándýrar kistur við líkbrennslur? Væri ekki nóg að brenna botninn, en endurnýta lok og hliðar hennar?
- Eru umbúnaðurinn og skreytingarnar endilega nauðsynlegar eða viðeigandi?
- Hvers vegna þarf líkklæði og annan umbúnað í kistu þegar hinn látni á fatnað og annað sem þarf til hinstu fararinnar?
- Af hverju þarf dýrar veitingar í boð þar sem ættingjar eru aðeins komnir til að votta virðingu sína og minnast? Er ekki alveg nóg að bjóða kaffi, te, vatn og e.t.v. gosdrykki? Mörgum finnst það vinalegur siður að ættingjar hittist eftir útför og þá er það auðvitað sjálfsagt, – en í mörgum tilfellum vilja nánustu ættingjar fá að hittast einir við slík tækifæri og það á að vera jafn sjálfsagt.
Að ósk
Það verður æ algengara að fullorðið fólk hafi mótað sér skoðun á því hvernig það vill vera kvatt og setji fram óskir um það við sína nánustu.
Í öllum tilfellum sem ég þekki hafa þessar óskir miðast við að minnka tilstandið, kostnaðinn og mannfjöldann við útför.
Hvað er það sem mestu máli skiptir við þessa dýrmætu kveðjustund? Er það aðkeyptur umbúnaður, dýrar og mannmargar veislur eða tilfinningaleg úrvinnsla þeirra sem eftir lifa?
Öll höfum við ólíkar skoðanir á lífinu og tilverunni, mismunandi trú og persónulegt mat á því hvað skiptir mestu máli. Við eigum öll rétt á að þær skoðanir séu virtar, einnig við dauðann. Enginn skyldi láta efnishyggju og sölumennsku móta það hvernig hann kýs að kveðja við andlát, hvorki sitt eigið né ástvinanna.
Ég hvet alla til að endurskoða þessar hefðir út frá eigin forsendum, hugsa málið og þora að taka sjálfstæðar ákvarðanir ef efnishyggjan og yfirborðmennskan gengur fram af þeim. Bestu og innilegustu kveðjustundir sem ég hef orðið vitni að eru þær athafnir sem ættingjarnir hafa sjálfir af ást og virðingu mótað að ósk hins látna og í samræmi við eigin tilfinningar.