Skip to main content
All Posts By

Ásatrúarfélagið

Haustblótið næsta laugardag, 24. október

Eftir Fréttir

Hausblótið verður haldið fyrsta vetrardag eða laugardaginn 24. október í sal félagsins að Síðumúla 15. Húsið verður opnað kl. 19:30 og blótið hefst kl. 20:00, blóttollur er 3.500 krónur og má greiða hann hér á skrifstofunni á milli kl. 13:30 og 16:00 alla virka daga. Einnig má millifæra inná reikning félagsins (0101-26-011444, kt. 680374-0159).

Í boði verður:
– Haustveisla að hætti veitingastaðarins Soho
– Hugleikur Dagsson skemmtir við borðhald
– Kári og Sigurboði flytja okkur Baldursdrauma

Allir eru  velkomnir!

Fornir fundir í lit-sýning í sal Ásatrúarfélagsins

Eftir Fréttir

Elaine kynntist fyrst fornleifafræði 11 ára gömul. Hugur hennar heillaðist af listaverkum fyrri kynslóða sem þá voru þó aðeins vísindaverkefni í hennar augum og sneydd lífi, litum og tengingu við fólkið sem skóp þau.
Hún lagði upphaflega stund á landslagsmyndir en áhugi hennar á fornri list norrænna manna jókst stöðugt og ekki hvað síst áttu listaverkin í Gaukstaða- og Asebergskipunum þátt í því að hún söðlaði um í listsköpun sinni. Elaine hóf að lesa í söguna og táknin í þessum fornu myndverkum,  glæða þau lífi og lit á ný og greiða þeim leiðina til nútímamannsins.
Verk Elaine eru skemmtileg endurlífgun fornrar norrænnar myndlistar og allir eru velkomnir að koma og njóta í salnum okkar.

Barnagaman verður annan hvern sunnudag í vetur

Eftir Fréttir

Við viljum vekja athygli á því að Barnagaman Ásatrúarfélagsins verður framvegis annan hvern sunnudag, frá kl. 13:00 til 15:00. Næsta sunnudag, 18. október, er mæting hér í Síðumúlann en svo verður farið í göngutúr og leiksvæðið á Klambratúni skoðað. Allir eru velkomnir að koma með börnin sín og vera með.

Fleygun hafin fyrir hofinu

Eftir Fréttir

Það er gleðiefni að segja frá því að fleygun er hafin fyrir hofinu í Öskjuhlíðinni. Stórar vinnuvélar eru þar á sveimi að vinna sitt verk. Verkinu miðar vel áfram. Staðarvættir eru okkur hliðhollir og berglög sömuleiðis.

Ath! Barnagaman færist á sunnudaga kl. 13

Eftir Fréttir

Vakin er athygli á því að Barnagaman Ásatrúarfélagsins færist frá laugardögum kl. 11 yfir á sunnudaga kl. 13. Það eru þær Svandís og Fjóla sem sjá um þetta skemmtilega starf. Á hverjum sunnudegi gera þær eitthvað uppbyggilegt og spennandi með börnunum sem mæta og það er alltaf djús og meðlæti á boðstólum.  Á á Facebook-síðu Barnagamans er auglýst nánar dagskrá hvers sunnudags fyrir sig. Allir eru velkomnir með börnin sín!

Takk fyrir Alfreð

Eftir Fréttir

Ásatrúarfélagið vill þakka Alfreð í Kísildal, fyrir almennilegheit og óeigingjarnt starf í þágu félagsins. Ef eitthvað bjátar á í tölvumálum á skrifstofunni þarf ekki annað en að kíkja yfir og inn um næstu hurð, nefna nafnið hans og hann er strax mættur til okkar að bjarga málunum. Það er ómetanlegt. Takk kærlega fyrir það Alfreð!

Alda Vala og Sigurður Mar fá vígsluréttindi

Eftir Fréttir

Í sumar fór fram tvöföld goðavígsla á vegum félagsins í einstaklega góðu veðri á Þingvöllum. Það voru þau Alda Vala Ásdísardóttir og Sigurður Mar Halldórsson sem hafa verið undanfarin tvö ár í þjálfun sem hlutu vígslu. Alda Vala býr í Mosfellssveit og fer nú með Hvammverjagoðorð. Sigurður Mar býr á Höfn í Hornafirði og fer með Svínfellingagoðorð.

Útgáfuteiti bókarinnar Sögur í norrænni goðafræði

Eftir Fréttir

Sögur úr norrænni goðafræði er glæsileg og ríkulega myndskreytt barna- og unglingabók sem nú er komin út á vegum bókaútgáfunnar Rósakots í samstarfi við Peter Streich.

Í bókinni má finna bráðskemmtilegar endursagnir á nokkrum af helstu goðsögum norrænna manna. Hér kynnumst við þrumuguðinum Þór, bragðarefnum Loka, jötnum, dvergum, skrímslum og hrímþursum auk sögunnar af bardaga Sigurðar við drekann Fáfni svo að fátt eitt sé nefnt.

Bókin er skreytt litríkum myndum sem kveikja í ímyndunaraflinu en textinn er í senn vandaður og auðlesinn í þýðingu verðlaunaskáldsins Bjarka Karlssonar.

Útgáfuteiti verður haldið í Síðumúla 15, laugardaginn 8. ágúst kl. 13, í húsakynnum Ásatrúarfélagsins.

Upplestur, veitingar og samvera. Allir velkomnir.

Þingblót fimmtudaginn 25. júní

Eftir Fréttir

Allsherjargoði helgar blótið kl. 18:15 og í framhaldi af því fer fram tvöföld goðavígsla. Það eru þau Alda Vala Ásdísardóttir og Sigurður Mar Halldórsson sem hafa undanfarin tvö ár verið í þjálfun, sem taka goðavígslu. Þegar athöfninni lýkur göngum við saman niður á vellina, grillum og gleðjumst saman.
Félagið mun reisa tjaldborg í skjóli furanna á völlunum eins og áður og félagið sér
um að koma grillaðstöðu í gagnið, sem allir gestir geta nýtt sér að vild. Mælt er með
að fólk taki með sér mat sem þarf ekki langan eldunartíma því margir þurfa að nota
grillin. Börn fá pylsur í boði félagsins og sungið verður saman og spjallað. Síðast en
ekki síst mun svo hin sívinsæla hljómsveit Hrafnagaldur skemmta fram eftir kvöldi.

Hofbygging Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð

Eftir Fréttir

Á heimasíðu Magnúsar Jenssonar arkitekts má sjá nokkrar bygginganefndarteikningar af hofinu. Ásatrúarhofið verður byggt í tveimur áföngum, fyrst helgidómur, sem notaður verður sem fjölnotarými og lágmarks stoðrými. Félagsheimili verður byggt í öðrum áfanga.
Hér er hægt að fara inná síðu Magnúsar og skoða teikningarnar.