Árlegt Njarðarblót í Suðurlandsgoðorði verður haldið á Fossflöt í Hveragerði sunnudaginn 30. júlí kl. 13:00. Gengið er inn í lystigarðinn á horni Breiðamerkur og Skólamerkur. Eftir athöfn eru blótsgestir boðnir í kaffi og með því á veitingastaðnum Varmá. Haukur Bragason helgar blótið.
Gróðurblót í Baldurslundi í Heiðmörk verður haldið sunnudaginn 16. júlí nk. Að venju komum við saman og gróðursetjum í reit Ásatrúarfélagsins við Þingnes í Heiðmörk.
Áhugasamir félagar hafa á umliðnum árum komið saman og gróðursett í reit félagsins undir styrkri stjórn Egils Baldurssonar og við erum farin að sjá árangur erfiðisins.
Þingnes við Elliðavatn var fyrsti helgistaður Íslands og þar helgaði Þorsteinn Ingólfsson, fyrsti allsherjargoðinn, þing á þessum fagra stað.
Mæting verður kl. 15 og í framhaldi af gróðursetningu munum við eiga góða stund með helgihaldi, kveðskap, tónlist, mat og drykk.
Við fáum góða gesti í heimsókn og stemmingin verður einstök sem endranær.
Skrifstofa Ásatrúarfélagsins verður lokuð í júlí. Opnum aftur 1. ágúst. Opnu húsin á laugardögum verða á sínum stað frá kl. 14:00 – 16:00 eins og áður. Alltaf er hægt að ná í goðana en upplýsingar um þá má finna á heimasíðunni asatru.is.
Gróðurblót verður haldið við Þingnes þann 16. júlí á reitnum okkar í Heiðmörk. Nánar auglýst síðar.
Þingblót verður haldið fimmtudaginn 22. júní 2017. Blótið verður helgað stundvíslega kl. 20:00 við Lögberg. Eftir helgistundina verður gengið niður að tjaldborg á Völlunum þar sem blótveislan fer fram. Grill verða á staðnum, pylsur handa börnum og ýmislegt sér til gamans gert. Allir velkomnir.
Notkun rúnaleturs virðist í hugum flestra Íslendinga einskorðast við ristur með eldri eða yngri fúþark-stafrófi á minningarsteinum eða rúnasteinum í Skandinavíu, sem reistir eru í minningu einhvers, eða þá við galdratákn og kukl í íslenskum handritum. Þessi hátíðlega notkun á rúnum er þó ekki einkennandi fyrir notkun rúnaleturs eða rúnahefðina á Íslandi – rúnir virðast hafa verið mikilvægur hluti af hversdagslegu lífi manna hér á öldum áður. Rúnir voru notaðar alla jafna fram til 1900 á Íslandi, við hin ýmsu tilefni og lifðu með þjóðinni þrátt fyrir mótbárur kirkjunnar. Þær voru ódrepandi þáttur í íslenskri menningu, en svo virðist sem alger viðsnúningur hafi orðið í þeim efnum. Íslendingar þekkja ekki lengur sína rúnahefð, hafa glatað henni og gleymt. Hér verður því farið yfir sögu hinnar íslensku rúnahefðar, varðveittar rúnaristur á Íslandi og helstu tegundir ristna hérlendis.
Sýning Önnu Leifar Elídóttur, Ömmurnar verður opnuð í salnum í Síðumúla 15, laugardaginn 6. maí á opna húsinu, kl. 14:30 til 16:30. Léttar veitingar verða í boði.
Ömmurnar eru myndverk sem Anna Leif málaði af nokkrum formæðrum sínum sem fæddar voru á tímabilinu 1874-1923. Með myndunum fylgir saga hverrar þessarra kvenna, en þær áttu mjög ólíka daga um ævina.
Anna Leif útskrifaðist úr fornámi til myndlistar frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og diplóma til kennsluréttinda á grunn- og framhaldsskólastigi þaðan árið 2007. Anna Leif lauk námi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst og starfar nú á Þjóðminjasafninu.
Ömmurnar er verkefni sem Anna Leif hefur verið lengi með í huga enda ættfræði henni, sem og flestum Íslendingum hugleikin. Anna Leif er útskrifuð frá Listaháskóla Íslands árið 2005 með BA í myndlist. Hún hefur sýnt á fjölda samsýninga en síðasta einkasýning hennar var á Vökudögum árið 2013 í Klukkuturninum að Görðum, Akranesi.
Pétur Halldórsson flytur fyrirlestur sinn, Stærð veraldar, á opna húsinu laugardaginn 22. apríl, kl. 14:30 í Síðumúla 15.
Hin forna trú byggðist á hringrás lífs og dauða, tímatali, tölvísi, endurtekningu, hugmyndafræði miðju, jarðartrú og landmælingu. Helgistaðir voru tengdir landinu og náttúran lék megin hlutverk í helgisiðum. Allir eru velkomnir.
Sigurblót verður haldið í Síðumúla 15, sumardaginn fyrsta kl 14:00.
Pylsur á grillinu og sumargjafir handa börnunum og kaffi á könnunni handa fullorðna fólkinu. Blaðrarinn kemur í heimsókn. Allir velkomnir!
Sigurblót Ásatrúarmanna verður haldið við Sílavík á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl. Sigurður Mar Svínfellingagoði helgar blótið kl. 17:00. Sumardagurinn fyrsti er hinn forni þjóðhátíðardagur Íslendinga og um aldir hefur tíðkast að gefa börnum sumargjafir. Því fá öll börn sem mæta litla sumargjöf. Á eftir verða grilluð Iðunnarepli og goðapylsurnar verða á sínum stað. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Vegna viðgerða á húsnæði Ásatrúarfélagsins fellur opna húsið niður laugardaginn 8. apríl og Barnagaman sunnudaginn 9. apríl.