Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Jól fyrr og nú

Eftir Fréttir

Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú.

Í Lesbók Morgunblaðsins 24. des. 1925 er fjallað um forna jólasiði:

Margar sagnir sanna, að forfeður vorir hafa haldið hátíð mikla um miðsvetrarskeið, og kallað jól. En upphaflega mun þó nafnið jól eigi hafa táknað hátíð, heldur hefur það verið mánaðarnafn eða missera. Gotar í Austur-Evrópu nefndu nóvember fyrri mánuð jóla og desember annan. Hjá Engil Söxum hjetu mánuðirnir desember og janúar jól. Og í fornnorrænu hjet einn mánuður ársins (frá því í nóvember og fram að jólum) Ýlir, og er það nafn dregið af jól.

Flestir telja að sólhvarfahátíð, jólin, sem vér nú höldum helg 25. desember, eru komin í stað jóla heiðingjanna. Fyrst í stað hjelt kirkjan afmælishátíð Krists hinn 6. janúar, en á 4. öld var þessu breytt, vegna þess, að kristnir menn hjeldu alltaf upp á hin heiðnu jól eða tóku þátt í fögnuðinum út af því, að sólin hækkaði aftur göngu. Og þessi breyting var rjettlætt með því, að sólhvörfin væri afmælishátíð hinnar einu sönnu sólar, Krists, „rjettlætisins sólar“. Jólunum má og eigna siði þá, sem bundnir eru við Eldbjargarmessu (7. jan.). Þá drukku menn Eldbjargarminni sem fagnaðaröl út af því að þá kemur sólin aftur með eld sinn.“

Í Lesbók MBL 1949 er fjallað um heiðin jól og kristin jól:

Samkvæmt gamla tímatalinu voru sólhvörf 25. desember. Prokópis segir; á 6tu öld, að íbúar Thule í norðrinu seu í myrkri, um vetur, 40 daga, þegar 35 þeirra eru liðnir, senda þeir menn upp á fjallatinda að vita hvort sjái til sólar. Ef þeir sjá til hennar, byrjar veislufögnuður hjá öllum. Nú var fæðingardagur Krists ókunnur, og var ekki haldinn hátíðlegur fyr en seint á 4ðu öld e.Kr. „Kristur er sólin, sem sigrar myrkrið“, endurhljómar í kristnum ritum. velja menn honum því fæðingardag, þegar sólin, lífgjafinn, færir oss hita og ljós. Armeníumenn, sem tóku kristni einna fyrstir af öllum þjóðum, halda enn jólin 6. janúar, þ.e. á þrettánda.

Páll Vídalín skrifaði um jól og heiðni: „Jól er eldra orð í norrænu máli en kristnin sjálf. Orðið þýðir veisla líkt og orðið blót. Kom það í stað veturnátta blóts heiðingja.“ Elsta vísbending um jólahald er í kvæði um Harald hárfagra sem talið er frá 9. öld. Þar er hann sagður vilja „drekka jól úti“ og „heyja Freys leik“. Í Heimskringlu segir að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri hafi um miðja 10. öld fært jólahald Norðmanna frá einhverri „hökunótt“, sem enginn veit hvenær var, til sama tíma og kristnir menn héldu fæðingarhátíð frelsarans. Líklegast er að tímasetning hinna fornu jóla hafi ekki verið á neinum vissum degi eftir okkar almanaki, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu.

Textinn, sem er lítillega styttur, er fengin að láni af vefsíðunni: http://www.ferlir.is/?id=6944

Egill Baldursson

Við viljum gefa

Eftir Fréttir

Æ fleiri Íslendingar eiga líf sitt því að þakka að hafa þegið líffæri að gjöf. Eftirspurnin eykst þökk sé framförum í læknavísindum og æ fleiri bíða gjafalíffæris. Dýrmætari gjöf er ekki hægt að gefa.

Skilyrði þess að mega nema líffæri úr látnum manni er að hann hafi lýst yfir vilja til þess í lifanda lífi eða að aðstandendur samþykki. Fram hefur komið að í 40% tilvika segja aðstandendur nei.

Þess vegna er full ástæða til að minnast þess að þótt fé deyi og frændur, þá deyr orðstír aldrei. Sá sem þarf að kveðja lífið, en gefur það um leið öðrum að skilnaði, öðlast góðan orðstír sem tengist þakklæti og virðingu – og lifir. Það er ástvinum huggun harmi gegn.

Líf liggur við
Ásatrúarfélagið styður átak SÍBS, „Ég vil gefa", þar sem hvatt er til samræðna um líffæragjafir. Innbyrðis hafa heiðnir menn ólíkar hugmyndir um það hvort látinna bíði annað líf umfram það sem þeir eiga í minningaheimi eftirlifenda en þó erum við almennt viss um að velferð okkar í eilífðinni sé ekki undir því komið að við tökum með okkur öll líffærin í gröfina.

Á næstu dögum sendir Ásatrúarfélagið öllum félagsmönnum sínum, um 2.100 talsins, óútfyllt líffæragjafaskírteini sem þeir verða hvattir til að fylla út og ganga með á sér. Um leið hvetjum við vini okkar í öðrum trúfélögum og utan þeirra til að taka jákvæða afstöðu til líffæragjafa. Líf liggur við.

Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði
Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði og staðgengill allsherjargoða.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 4. desember 2012

Fyrirlestrar á vormisseri

Eftir Fréttir

Eftir áramót fer af stað röð spennandi fyrirlestra þar sem fræðimenn og listamenn bregða nýju og óvæntu ljósi á varðveislu og viðgang hins forna arfs og gilda.
Þar má nefna þá félaga Friðrik Erlingsson og Gunnar Karlsson sem fjalla um teiknimyndina „Þór, hetjur Valhallar“ og varpa ljósi á þá vinnu sem fór fram að
tjaldabaki: Aðlögun goðsagna að nútímanum, hvernig sögur þróast og öðlast sjálfstætt líf og þá þraut að myndgera goð, gyðjur, hetjur og jötna á kíminn hátt án þess
að móðga meðlimi félagsins.

Skáldkonan og þjóðfræðingurinn, Vilborg Davíðsdóttir, fjallar um þrekvirkin Auði og Vígroða og þær frumrannsóknir sem liggja að baki. Enn fremur fjallar Sveinn Yngvi Egilsson um heiðið leynifélag Bessastaðaskólapilta, þversagnakennda afstöðu þeirra gagnvart Eddulist og ýmislegt annað sem hann tæpti á í snilldarritgerðinni „Óðinn sé með yður“ í undirstöðuritinu „Guðamjöður og arnarleir“.

Aðalheiður Guðmundsdóttir verður með erindið „Handverksmaðurinn og hetjan“ og Steindór Andersen bregður ljósi á kenningar og heiti Skáldskaparmála Snorra frá
öndverðu fram á okkar dag.

Fleiri eiga eftir bætast í hópinn og dagskráin verður kynnt á heimasíðu félagsins.

Undirritaður ríður á vaðið á nýju ári þann 5. janúar með erindi sem nefnist „Óðinsgervingar á hvíta tjaldinu“ og þar verða einnig kynntar þrjúbíó samkomur á
sunnudögum þar sem verður farið í gegnum frábærar, góðar, slæmar og sérdeilis vondar kvikmyndir sem tengjast heiðnum minnum.

Hilmar Örn Hilmarsson
Allsherjargoði

„Þá skall á eitt ægilegasta þrumuveður sem dunið hefur yfir&#8220

Eftir Fréttir

Við höfum tekið til birtingar á vefnum viðtal við Sveinbjörn Beinteinsson sem birtist í skólablaði Verslunarskólans snemma árs 1982.

Gaman væri að fylgja þessu eftir með því að birta fleira gamalt efni sem varðar félagið og siðinn. Ábendingar um efni eru vel þegnar. Þeim er best komið á framfæri með tölvupósti til Bjarka Karlssonar, bjarki[hjá]fraedi.is.

Ný lögrétta – konur í meirihluta

Eftir Fréttir

Allsherjarþing var haldið á Hótel Sögu í dag, 27. október. Á þinginu lauk kjörtímabili þriggja lögréttumanna, Huldu Sifjar Ólafsdóttur, Böðvars Þóris Gunnarssonar og Halldórs Bragasonar. Einnig lauk kjörtímabili varamannanna Sigurlaugar Lilju Jónasdóttur og Lenku Ková?ovu.

Í lögréttu voru eftirfarandi kosnar:
Hulda Sif Ólafsdóttir
Sigurlaug Lilja Jónasdóttir
Hrafnhildur Borgþórsdóttir

Auk þess hefst nú síðara ár kjörtímabils Halls Guðmundssonar og Bjarka Karlssonar.

Allsherjargoði og staðgengill hans eru einnig aðalmenn í lögréttu; Hilmar Örn Hilmarsson og Jóhanna G. Harðardóttir.

Varamenn eru:
Lenka KováÅ•ová – 1. varamaður
Böðvar Þórir Gunnarsson – 2. varamaður

Löglegt en siðlaust misrétti

Eftir Fréttir

Grein eftir Jóhönnu Harðardóttur, Kjalnesinga­goða. Birtist í Fréttablaðinu 16. október.

Dómur féll í máli Ásatrúarfélagsins gegn ríkinu í nóvember 2006 þar sem fjallað var um greiðslur sambærilegar þeim sem þjóðkirkjan hefur þegið af ríkinu.

Skemmst er frá því að segja að Ásatrúarfélagið tapaði því máli, en dómurinn komst þó að þeirri niðurstöðu að Jöfnunarsjóður sókna geri upp á milli trúfélaga þótt greiðslur úr sjóðnum séu ákvarðaðar með lögum.
Sum sé, löglegt en siðlaust.

Ásatrúarfélagið tók ákvörðun um að áfrýja málinu til Mannréttindadómstólsins til að freista þess að ná fram réttlæti, en nú hefur einnig það hálmstrá brugðist þar sem málinu var vísað frá dómi í byrjun október 2012.

Alltof lengi hefur Ásatrúarfélagið látið yfir sig ganga mismunun af hálfu hins opinbera og það þegjandi og hljóðalaust. Hér skal skýrt tekið fram að félagið fer aðeins fram á að jafnrétti ríki meðal landsmanna hverrar trúar sem þeir eru, eins og segir til um í stjórnarská og mannréttindalögum, en tekur ekki afstöðu gegn öðrum trúfélögum eða greiðslum til þeirra að neinu leyti.

Staðreyndir eru ljósar varðandi mismunun á stuðningi við landsmenn eftir því hvar í trúfélög þeir skipa sér. Því verður aldrei á móti mælt að þjóðkirkjan hefur stuðning ríkisvaldsins sem tryggir henni gífurlegar fjárhæðir í gegnum opinbera sjóði og ýmsa styrki. Allar eru þessar greiðslur komnar úr vösum skattborgaranna, þ.m.t. ásatrúarmanna og annarra þegna sem standa utan þjóðkirkjunnar.

Og nú kann einhver að draga fram þessi margnotuðu rök; „en þjóðkirkjan ber ábyrgð og skyldur gangvart öllum landsmönnum.“ Svo kann vel að vera, en það gera aðrir líka.

Þrátt fyrir að það kunni að koma illa við einhvern lesanda er það engu að síður staðreynd að talsverður hluti landmanna kærir sig einfaldlega ekki um þjónustu þjóðkirkjunnar rétt eins og hluti landsmanna kærir sig ekki um þjónustu Ásatrúarfélagsins. Á tuttugustu og fyrstu öldinni er kominn tími til að viðurkenna þessa staðreynd og sætta sig við hana.

Fjárveitingar ríkisins skipa landsmönnum í flokka
Ásatrúarfélagið er það trúfélag sem hefur stækkað langmest undanfarin 10 ár. Það starfar á landsvísu og á miklum skyldum að gegna um dreifaðar byggðir landsins. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér gífurlegan kostnað sem erfitt er að standa undir þegar einu tekjurnar eru sóknargjöld.

Ásatrúarfélagið hefur axlað sína ábyrgð og aldrei skorast undan þjónustu við landsmenn, án tillits til þess hvort viðkomandi er skráður í Ásatrúarfélagið, þjóðkirkjuna eða er utan safnaða. Þetta hefur verið gert með gleði þrátt fyrir að goðar félagsins séu launalausir, undir talsverðu álagi og þiggi aðeins lágmarksgreiðslur fyrir athafnirnar sem þeir framkvæma.

Ásatrúarfélagið ber ábyrgð á fornum menningarverðmætum ekki síður en þjóðkirkjan. Því hlutverki hefur félagið sinnt með sóma þrátt fyrir að starfið hafi mestan part verið unnið í sjálfboðavinnu félagsmanna og við erfiðar aðstæður.

Það er vissulega erfitt að taka hverju kjaftshögginu á fætur öðru fyrir dómstólum. En þegar barist er fyrir réttlætinu gefst maður ekki upp. Við ásatrúarfólk erum íslenskir ríkisborgarar ekki síður en þeir sem skráðir eru í þjóðkirkjuna, það eru einnig þeir sem standa utan trúfélaga eða eru í öðrum minni söfnuðum.

Gleymum því aldrei að fjárveitingar eru stefnumótunartæki. Með því að styrkja einn söfnuð en svelta aðra er ríkisvaldið að taka skýra afstöðu með einni lífskoðun og gegn annarri og við þær aðstæður ríkir ekki raunverulegt trúfrelsi í landinu. Það er ekki mikið flóknara en svo.

Vandræði með tölvupóst Ásatrúarfélagsins

Eftir Fréttir

Ágæti félagsmaður og lesandi.

Fyrir nokkru kom upp alvarlegt ástand á póstþjóni Ásatrúarfélagsins. Hýsingaraðilinn hefur viðurkennt mistök sem urðu til þess að tölvupóstur sem átti að berast félaginu og goðum félagsins síðustu rúmar tvær vikur hefur ekki borist okkur og mun ekki berast okkur nema pósturinn verði sendur til okkar aftur. Við tökum það afar nærri okkur að fá ekki þá tölvupósta sem verið er að senda okkur og biðjumst við velvirðingar á klaufaskap hýsingaraðilans.

Með virðingu og vinsemd

Hallur Guðmundsson
Lögsögumaður

Fræðsla fyrir alla

Eftir Fréttir

Grein eftir Jóhönnu G. Harðardóttur, Kjalnesinga­goða, sem birtist í Fréttablaðinu 27. september 2012.

Oft höfum við ásatrúarfólk fengið skömm í hattinn hjá nýjum félögum um leið og þeir ganga í félagið. Þeir setjast gjarna fyrir framan okkur með alvöruþunga í svipnum og spyrja hvernig í ósköpunum standi á því að þeir hafi aldrei verið fræddir um heiðinn sið og félagið, eða boðið að vera með.

Nýliðarnir eru stundum alvarlega sárir út í okkur og kenna forsvarsmönnum félagsins um að þeir hafi „misst af" mörgum árum eða áratugum í félagsskap annars heiðins fólks. Þeir átelja okkur fyrir að hafa ekki auglýst starfsemina og skýrt út fyrir almenningi um hvað heiðinn siður og félagsstarfið snýst.

Við verðum jafnan svolítið kindarleg og vitum upp á okkur skömmina því sjálf höfum við flest dottið óvart inn í félagið og drepséð eftir því að hafa ekki fundið okkur þar fyrr á lífsleiðinni.

En svona er þetta bara, það er einfaldlega meðvituð stefna Ásatrúarfélagsins að boða ekki trú eða troða lífsskoðun okkar upp á aðra. Það er ekki einungis talinn óþarfi, heldur beinlínis dónaskapur að mati flestra heiðinna manna.
Það gilda svo allt aðrar reglur um að fræða þá sem sækjast eftir því sjálfir og við treystum því að fólk leiti og finni.

Undanfarin ár hefur fjöldi unglinga leitað til félagsins af eigin hvötum og fengið að gangast undir svokallaða siðfestuathöfn sem er hliðstæða við kristna fermingu. Upphaflega var hún aðeins hugsuð fyrir fullorðið fólk sem vildi sanna fyrir sjálfu sér og öðrum að það hefði heiðinn sið að leiðarljósi í lífinu, en síðastliðin ár hafa unglingar sótt æ meira í þessa athöfn og fengið að taka siðfestu að undangenginni fræðslu og með samþykki forráðamanna.

Í fyrstu var fólk á öllum aldri saman í þessari fræðslu, en nú hefur henni verið skipt í tvo hópa sem hefja starf á haustin. Í öðrum hópnum er fullorðið fólk sem vill taka siðfestu, en í hinum unglingar og oft aðstandendur þeirra með þeim.

Unglingafræðslan miðast að því að kynna krökkunum goð og vættir, sagnaarf þjóðarinnar, lífsspeki Hávamála og Völuspár og ekki hvað síst ábyrgð hins heiðna lífsstíls og fullorðinsáranna. Fræðslan fer að mestu fram í heimspekilegum umræðum með léttu ívafi og lagt mikið upp úr því að allir tjái sig og viðri skoðanir sínar á þessum málefnum og er því oft glatt á hjalla.

Fræðsla um heiðinn sið hefst á haustdögum og nú er tækifærið fyrir þá sem hafa áhuga að hafa samband. Að sjálfsögðu eru allir jafn velkomnir að sækja til okkar félagsskap og fræðslu. Okkar er ánægjan, því eins og segir í Hávamálum; maður er manns gaman.

„Hefðbundin&#8220 útför

Eftir Fréttir

Grein eftir Jóhönnu G. Harðardóttur, Kjalnesingagoða, sem birtist í Morgunblaðinu 14. september 2012:

„Hefðbundin“ útför

Það syrtir jafnan að þegar ástvinur kveður. Ofan á sorgina og söknuðinn sem leggst á sálina bætast oft áhyggjur af framtíðinni, m.a. fjárhagslegar.

Í samfélaginu hafa skapast hefðir um hvernig skuli standa að útför og þeim fylgir gjarna gífurlega hár kostnaður sem reynist mörgum ofviða og veldur kvíða og erfiðleikum.

Ég hef orðið vitni að innri átökum eftirlifenda milli þess að „gera vel“ við minningu hins látna og þess að sitja uppi með erfiðar skuldir til margra ára. Ég hef líka líka orðið vitni að því þegar aðstandendur þurfa að velja milli þess sem þeir álíta að hafi verið ósk hins látna og þess sem aðrir vinir og ættingjar búast við eða ætlast til varðandi útförina.

Það er nefnilega ekki svo einfalt að brjóta á bak aftur hefðir þegar andlát ber að höndum. Sorg og söknuður annars vegar og væntingar samfélagsins hins vegar gera það erfitt að beita skynseminni eða fara óhefðbundnar leiðir þegar um hinstu kveðju er að ræða.

..og tilheyrandi
Flestir leita til útfararstofu þegar ástvinur deyr, enda auðveldar það erfiða ferð um ókunna stigu. Útfararstofur og -þjónustur eru margar og ekki um nákvæmlega sömu þjónustu né kostnað að ræða alls staðar. Þess má þó geta að viss lög gilda um hinn tæknilega þátt útfara, sbr. greftrun og bálför og um það stendur ekkert val.

Hin hefðbundna útför miðast alltaf við að hinn látni sé jarðsettur eða brenndur í þartilgerðri líkkistu sem kostar að lágmarki eitthvað á annað hundrað þúsund og allt á þriðja hundrað ef íburður er mikill. Í kistuna er einnig í boði ýmis umbúnaður s.s, vandaðar fóðringar, sæng, koddi, klútur og líkklæði.Ef lík er brennt þarf einnig að kaupa ker undir öskuna.

Til að gera umhverfi útfararinnar enn glæsilegra eru einnig í boði blómaskreytingar á kistuna sjálfa og á altari í kirkju eða annars staðar þar sem útför fer fram. Fallegur söngur þykir alltaf prýða og við allflestar athafnir er aðkeypt tónlistaratriði, t.d. orgelleikur eða annar hljóðfæraleikur, kórsöngur eða einsöngvarar. Í boði er einnig að láta gera vandaða sálmaskrá sem dreift er meðal gesta.

Hefðin gerir einnig ráð fyrir að tilkynnt sé um andlát og útför með tilheyrandi auglýsingum í útvarpi og blöðum og að í framhaldi sé erfidrykkja þar sem öllum þeim sem áhuga hafa er boðið til kaffihlaðborðs sem helst þarf að svigna undan kræsingum.

Ekki er óalgengt að leigður sé salur undir slíkar veislur og við það bætist kostnaður við veitingarnar sjálfar, laun starfsmanns og oft einhver kostnaður við skreytingar. Ef hinn látni hefur verið vinmargur, ættstór eða opinber persóna hleypur kostnaður af slíkri erfidrykkju á hundruðum þúsunda króna.

Að lokum þarf að merkja leiðið og bætist þar við kostnaður við legstein eða annars konar minnismerki.

Það gefur auga leið að hefðbundin útför er ekki aðeins óyfirstíganlegur kostnaður fyrir marga, heldur getur einnig strítt gegn vilja og sannfæringu hins látna og eftirlifenda hans.

Gerviþarfir og efnishyggja
Því miður get ég ekki litið á þessa hefð öðruvísi en sem óskapnað efnishyggjunnar. Hér er einfaldlega búið að gera „eins dauða að annars brauði“ og smyrja þá sneið ríkulega. Það er löngu kominn tími til að hugsa sinn gang og spyrja sig hvort þjónkun við gegndarlaust prjál og sölumennsku sé það sem við viljum láta einkenna okkar hinstu kveðju.

Og margar spurningar vakna:

  • Hvers vegna þarf líkkista að kosta 100-250 krónur?
  • Hvers vegna brennum við rándýrar kistur við líkbrennslur? Væri ekki nóg að brenna botninn, en endurnýta lok og hliðar hennar?
  • Eru umbúnaðurinn og skreytingarnar endilega nauðsynlegar eða viðeigandi?
  • Hvers vegna þarf líkklæði og annan umbúnað í kistu þegar hinn látni á fatnað og annað sem þarf til hinstu fararinnar?
  • Af hverju þarf dýrar veitingar í boð þar sem ættingjar eru aðeins komnir til að votta virðingu sína og minnast? Er ekki alveg nóg að bjóða kaffi, te, vatn og e.t.v. gosdrykki? Mörgum finnst það vinalegur siður að ættingjar hittist eftir útför og þá er það auðvitað sjálfsagt, – en í mörgum tilfellum vilja nánustu ættingjar fá að hittast einir við slík tækifæri og það á að vera jafn sjálfsagt.

Að ósk
Það verður æ algengara að fullorðið fólk hafi mótað sér skoðun á því hvernig það vill vera kvatt og setji fram óskir um það við sína nánustu.

Í öllum tilfellum sem ég þekki hafa þessar óskir miðast við að minnka tilstandið, kostnaðinn og mannfjöldann við útför.

Hvað er það sem mestu máli skiptir við þessa dýrmætu kveðjustund? Er það aðkeyptur umbúnaður, dýrar og mannmargar veislur eða tilfinningaleg úrvinnsla þeirra sem eftir lifa?

Öll höfum við ólíkar skoðanir á lífinu og tilverunni, mismunandi trú og persónulegt mat á því hvað skiptir mestu máli. Við eigum öll rétt á að þær skoðanir séu virtar, einnig við dauðann. Enginn skyldi láta efnishyggju og sölumennsku móta það hvernig hann kýs að kveðja við andlát, hvorki sitt eigið né ástvinanna.

Ég hvet alla til að endurskoða þessar hefðir út frá eigin forsendum, hugsa málið og þora að taka sjálfstæðar ákvarðanir ef efnishyggjan og yfirborðmennskan gengur fram af þeim. Bestu og innilegustu kveðjustundir sem ég hef orðið vitni að eru þær athafnir sem ættingjarnir hafa sjálfir af ást og virðingu mótað að ósk hins látna og í samræmi við eigin tilfinningar.