Listakonan Sigrún Lára Shanko verður á morgun á opnu húsi félagsins, frá kl. 14:00 til 16:00. Sigrún mun ræða við áhugasama gesti og gangandi um textílverkin sín sem prýða veggi félagsins. Þeir sem hafa ekki séð þessi fallegu textíllistaverk sem fjalla um Völuspá og Sigurdrífumál, ættu sannarlega að leggja lykkju á leið sína og kíkja við í Síðumúla 15. Kaffi og meðlæti verða á boðstólum. Allir eru velkomnir.
Þorrablót Ásatrúarfélagsins verður haldið á bóndadaginn 22. janúar í sal flugvirkjafélagsins Borgartúni 22.
Í boði er alvöru þorramatur frá Soho.
Gunnar Hrafn Jónsson skemmtir og hjónin Ragnar Ólafsson Þveræingagoði og Urður Snædal flytja minni karla og kvenna.
Eyvindur P. Eiríksson kveður drápu og Kári og Sigurboði flytja Völuspá.
Húsið opnað kl 19:30 og blót helgað kl. 20:00.
Blóttollur er kr. 6.500
Hægt er að kaupa miða á skrifstofunni eða greiða miðaverð inn á reikning félagsins: 0101-26-011444, kt. 680374-0159 í síðasta lagi miðvikudaginn 20. janúar.
ATHUGIÐ: Ekki er hægt að kaupa miða við innganginn og ekki verður bókað inn á blótið eftir 20. janúar. Miðar greiddir inn á bankareikning eftir 20. janúar verða endurgreiddir.
NÍU NÆTUR
Fögnum hækkandi sól. Hátíðablót Ásatrúarfélagsins við Garða á Akranesi verður haldið á gamlársdag 31. desember kl. 16:00.
Níu nóttum frá sólstöðum helgum við sólinni, Frey og Gerði Gymisdóttur hátíðastund við eld í hringnum bakvið safnahúsið á Görðum. Eftir athöfnina verður boðið upp á heitan drykk í stúkuhúsinu. Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði helgar blótið og listakonan Elaine ní Cuana sér um tónlistina. Allir eru velkomnir!
Jólablót Ásatrúarfélagsins verður haldið á vetrarsólstöðum þriðjudaginn 22. desember.
Blótið verður helgað í Öskjuhlíð, neðan vegarslóðans við lóðina okkar stundvíslega kl. 18:00. Þar verður hin eina og sanna jólahelgi undir berum himni og allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta.
Jólablótsveislan verður haldin í sal Flugvirkjafélagsins í Borgartúni 22, húsið verður opnað kl. 19:00 og í boði er glæsilegt jólahlaðborð og kaffi á eftir.
Allsherjargoði helgar blótið og börnin tendra jólaljósin og fá glaðning.
Duo Stemma skemmtir börnum og fullorðnum og tekur lagið.
Dregið verður úr númeruðum miðum í jólahappdrættinu.
Steindór Andersen kveður rímur.
Blóttollur er kr. 5000 fyrir fullorðna en börn undir 12 ára aldri fá frítt inn.
Hægt er að kaupa miða í blótveisluna á skrifstofunni á opnunartíma, en einnig má greiða miðana í netbanka inná reikning 0101-26-011444 kt. 680374-0159. Greidda miða má sækja við innganginn, en gæta verður þess að láta senda kvittun á asatru@asatru.is þar sem tilgreint er nafn greiðanda og fjöldi miða fyrir fullorðna og börn.
ATH. miðar verða EKKI seldir við innganginn.
Listakonanan Sigrún Lára Shanko mun opna sýningu í sal Ásatrúarfélagsins, laugardaginn 12. desember kl. 13:00. Sigrún sérhæfir sig í textílmálun á silki og hefur einbeitt sér við að finna sinn eigin stíl í þeim efnum en viðfangsefni hennar eru hinar fornu Eddur. Hún hefur líka undanfarin ár hannað gólf- og veggteppi úr íslenskri ull sem vakið hafa verðskuldaða athygli um allan heim. Á sýningunni sýnir Sigrún silkiverk úr Völuspá, Ragnars sögu loðbrókar og Sigurdrífumálum. Listamaðurinn mun segja aðeins frá sér og sínu og hvar hún leitar að innblæstri. Léttar veitingar verða í boði og allir eru hjartanlega velkomnir.
Sameiningarblótið sem átti að vera á Þingvöllum í dag, 1. desember kl. 18:00, verður fært í Öskjuhlíðina hjá minnisvarða Sveinbjörns Beinteinssonar. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði mun helga blótið.
Landvættablótið sem halda átti í Víkingaheimum í Keflavík fellur niður.
Landvættablótið sem átti að vera í Einkunnum í Borgarnesi verður fært í Hafnarskóg, við sumarbústað Jónínu K. Berg Vesturlandsgoða. Nánari upplýsingar um staðsetningu er í síma 865-2581.
Spáð er illviðri um allt land á morgun þriðjudaginn 1.desember og Veðurstofan varar við ferðalögum.
Við vitnum í Loddfáfnismál en þar segir meðal annars;
Á fjalli eða firði
ef þig fara tíðir,
fástu að veðri vel
Blótin verða ekki haldin nema veður og færð leyfi örugg ferðalög. Fylgist með á vefsíðunum og hjá þeim goðum sem standa að blótunum en þau eru: Hilmar á ÞIngvöllum, Jóhanna í Reykjanesbæ, Jónína í Borgarfirði, Ragnar á Akureyri og Baldur á Egilsstöðum.
Blót verða haldin víða um land á þriðjudaginn n.k.
Bergrisinn verður blótaður við Víkingaheima, Innri Njarðvík, Reykjanesbæ.
Griðungurinn verður blótaður í Einkunnum við Borgarnes.
Drekinn verður blótaður við Ferjusteina, við norðurenda Lagarfljótsbrúar, bílastæði við Bókakaffi.
Örninn verður blótaður á Hamarkotstúni á Akureyri.
Síðast en ekki síst verður haldið sameiningarblót á Þingvöllum í Almannagjá.
Blótin hefjast öll kl. 18:00 nema við Ferjusteina en það hefst kl. 20:00.
Allir velkomnir, félagsmenn sem aðrir.
Bergsveinn Birgisson er einhver margslungnasti, ef ekki fjölkunnugasti, höfundur sinnar kynslóðar. Á íslensku hefur hann ritað tvær ljóðabækur, tvær „hefðbundnar“ skáldsögur, skáldfræðisöguna „Handbók um hugarfar kúa“ og nýverið kom út síðasta verk hans, hið illflokkanlega „íslenzka fornrit: Geirmundar Saga Heljarskinns“.
Bergsveinn mun koma og lesa upp úr bók sinni, Geirmundar saga Heljarskinns hér í Síðumúlanum á opna húsinu, laugardaginn 21. nóvember kl. 14, og svara fyrirspurnum á eftir.
Einnig gefst fólki kostur á því að kaupa árituð eintök á tilboðsverði. Allir velkomnir.
.jpg)
Allsherjarþing verður haldið laugardaginn 31. október í sal félagsins að Síðumúla 15 og hefst það kl. 14:00.
Dagskrá fundarins er sem hér segir:
1. Skýrsla lögréttu
2. Reikningar
3. Kosning fulltrúa í lögréttu
4. Kosning skoðunarmanna reikninga
5. Ávarp allsherjargoða
6. Staða hofbyggingar
7. Önnur mál
Félagsmenn eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.